Páfinn ræðir réttindi samkynhneigðra

Frans páfi.
Frans páfi. AFP

Öldungadeild ítalska þingsins mun í næstu viku ræða lagafrumvarp sem á að veita samkynhneigðum pörum aukin réttindi. Frans páfi tjáði sig um frumvarpið í gær í Vatíkaninu og sagði að „fólk megi ekki rugla saman fjölskyldunni sem guð skapaði og annars konar fjölskyldum.“

Ítalía er eina vestur-evrópska ríkið sem viðurkennir ekki sambúð eða hjónabönd samkynhneigðra. Það er þingmaður úr flokki Demókrata, flokki Matteos Renzis forsætisráðherra landsins, sem hefur lagt frumvarpið fram en innan flokksins eru þó skiptar skoðanir á því. Sérstaklega er það lagagrein um að samkynhneigðir fái að ættleiða börn sem er umdeild í landinu. Aðrir telja að með lögunum verði staðgöngumæðrun lögleidd en slíkt er bannað í landinu í dag. Angelino Alfano innanríkisráðherra er einn þeirra sem berst gegn staðgöngumæðrun og sagði í viðtali í síðustu viku að þeir sem stundi slíkt ættu að fara í fangelsi fyrir kynferðisbrot

Ekki er meira en hálft ár frá því að Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að ítalska ríkið væri að brjóta mannréttindi með því að viðurkenna ekki hjónabönd samkynhneigðra. 

Sjá frétt The Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert