Sanders mun hækka skatta

Sanders á fundinum í gærkvöldi.
Sanders á fundinum í gærkvöldi. AFP

Bernie Sanders, sem sækist eftir því að verða forsetaframbjóðandi Demókrata í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í nóvember, sagði í gærkvöldi að ef hann yrði næsti forseti myndu skattar hækka, en fólk myndi þrátt fyrir það spara pening.

Sanders hefur barist fyrir því að sjúkratryggingakerfi Bandaríkjanna verði breytt og hefur nefnt kerfin á Norðurlöndum sem sína fyrirmynd.

„Já, við munum hækka skatta,“ sagði Sanders í gær á umræðufundi Demókrata við Drake-háskólann. Samkvæmt frétt NBC hefur hreinskilni Sanders, sem minnir ekki á klassíska stjórnmálamenn, heillað marga að frambjóðandanum en hann hefur einnig verið gagnrýndur.

Sanders sagði hinsvegar í gær að umræðan mætti ekki snúast aðeins um skattahækkanir, þar sem áætlun hans myndi lækka tryggingaiðgjöld meira en skattar myndu hækka. Helsti andstæðingur Sanders, Hillary Clinton, hefur gagnrýnt áætlanir Sanders um skattahækkanir og sagði Sanders það „ósanngjarna gagnrýni“ í ljósi þess að nýtt sjúkratryggingakerfi gæti sparað fólki peninga.

Sanders sagði jafnframt að Clinton, og þriðji frambjóðandi Demókrata, Martin O'Malley, væru góðir frambjóðendur, en sagði að Bandaríkin þyrftu meira. „Það bara virðist vera að vandamálin sem við stöndum frammi fyrir séu það alvarleg að við þurfum að fara út fyrir hefðbundin stjórnmál og hefðbundna hagfræði.“

Nú styttist í fyrstu forkosningarnar en þær fara fram í Iowa-ríki 1. febrúar. Clinton og Donald Trump eru með mesta fylgið á landsvísu.

Trump er með 39% fylgi meðal Repúblikana og þeirra sem hallast að Repúblikönum og er hann með 20% forskot á næsta frambjóðanda fyrir neðan sig, Ted Cruz. 

Hjá Demókrötum er Clinton með gott forskot á Sanders en hún er með 51% fylgi. Sanders hefur þó saxað á forskot utanríkisráðherrans fyrrverandi, og er með 37% fylgi á landsvísu.

Þessar tölur byggjast á skoðanakönnun NBC sem var gerð dagana 18.-24. janúar á netinu en 9.690 tóku þátt.

Þar kom m.a. í ljós að Clinton er vinsælli meðal kvenna en Sanders. 57% kvenna sem tilheyra Demókrötum sögðust styðja Clinton en 31% Sanders. Ungir kjósendur hallast þó frekar að Sanders en Clinton, óháð kyni.

68% fólks í aldurshópnum 18 til 24 ára sögðust styðja Sanders en aðeins 21% Clinton.  Hvítir styðja Clinton og Sanders jafnt, en hvort þeirra er með 45% fylgi. Svartir eru líklegri til að kjósa Clinton eða 65%. 20% svartra sögðust styðja Sanders. Í forkosningum Demókrata árið 2008 í Iowa voru 93% kjósenda hvítir.

Hillary Clinton er með mest fylgi meðal Demókrata.
Hillary Clinton er með mest fylgi meðal Demókrata. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert