Svara ekki beiðnum Sameinuðu Þjóðanna

Hér má sjá starfsmann UNICEF mæla handlegg vannærðrar stúlku í …
Hér má sjá starfsmann UNICEF mæla handlegg vannærðrar stúlku í Madaya fyrr í mánuðinum. AFP

Tæplega 75% af beiðnum Sameinuðu þjóðanna um leyfi til að senda neyðarbirgðir til Sýrlands hefur ekki verið svarað af sýrlenskum stjórnvöldum. Neyðarstjóri Sameinuðu þjóðanna, Stephen O‘Brien greindi frá þessu í dag.

Aðeins eru nokkrir dagar í næstu friðarviðræður vegna stríðsins í landinu sem hófst árið 2011. Sameinuðu þjóðirnar hafa hvatt til þess að umsátrum bæði stjórnarhersins og uppreisnarmanna á fjölmörgum stöðum í landinu verði hætt en margir hafa soltið í hel síðustu mánuði vegna þess.

O‘Brien sagði á fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í dag að það að komast á þau svæði sem setið er um „væri einfaldlega ekki að gerast“ og að sýrlensk stjórnvöld  þurfi að gefa leyfi fyrir flestum neyðarsendingum.

Á síðasta ári sendu Sameinuðu þjóðirnar 113 beiðnir til stjórnvalda um að senda neyðarbirgðir. Aðeins 10% þeirra komust til almennra borgara. Að sögn O‘Brien svöruðu sýrlensk stjórnvöld aðeins um 25% beiðnanna.

„Það er einfaldlega óboðlegt af aðildarríki Sameinuðu þjóðanna,“ sagði O‘Brien. Fyrr í þessum mánuði óskuðu SÞ eftir því að senda neyðarbirgðir til 46 svæða sem setið hefur verið um í langan tíma. Engin beiðni hefur verið samþykkt að fullu.

Það vakti heimsathygli fyrr í mánuðinum þegar að starfsmenn SÞ komust til bæjarins Madaya og sögðu frá íbúum sem þurftu m.a. að sjóða gras til þess að fá eitthvað að borða. Myndir af hungruðum börnum í borginni sköpuðu miklar umræður og var kallað eftir því að umsátrum í landinu yrði hætt. Um 486.700 manns búa á svæðum í landinu sem setið er um.

Rúmlega 260.000 hafa látið lífið í stríðinu í Sýrlandi og tæplega 4,6 milljónir Sýrlendinga hafa þurft að flýja heimili sín. Þá eru 13,5 milljónir manna sem þurfa mataraðstoð.

Starfsmenn Rauða hálfmánans í Madaya.
Starfsmenn Rauða hálfmánans í Madaya. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert