Fjallar um samkynja kynlíf

Aðgerðasinnar fagna fyrir utan dómshúsið í Delhi.
Aðgerðasinnar fagna fyrir utan dómshúsið í Delhi. AFP

Hæstiréttur Indlands hefur samþykkt að fjalla um ákvörðun um að endurvekja bann gegn kynlífi samkynja einstaklinga. Þeir sem berjast fyrir réttindum hinsegin fólks vonast til að umrædd löggjöf verði felld úr gildi.

Þrír hæst settu dómarar dómstólsins ákváðu að verða við beiðni um að endurskoða ákvörðun réttarins frá 2013, þar sem bann gegn kynlífi samkynja einstaklinga var endurvakið. Bannið byggir á löggjöf sem tók gildi á 19. öld, þegar Indland var nýlenda Breta.

Yfirdómarinn T.S. Thakur sagði í dag að málið væri afar mikilvægt og færi fyrir fimm dómara sem myndu úrskurða um stjórnarskrárgildi laganna.

Baráttufólk og einstaklingar innan hinsegin samfélagsins í Delhi fögnuðu fyrir utan dómshúsið. „Þetta er fyrsta skrefið í rétta átt. Það er langt til lands en við erum á réttri leið,“ sagði aðgerðasinninn Manish Malhotra.

Dhrubo Jyoti sagði að fólk hefði óttast að dómararnir myndu hafna beiðninni um fyrirtöku alfarið. „Við erum vongóð um að hinir heiðvirðu dómarar skoði nú málið og staðfesti stjórnarskrárvarinn rétt okkar.“

Kynlíf samkynja einstaklinga er enn tabú í inversku samfélagi, þar sem sumir álíta samkynhneigð geðsjúkdóm. Árið 2009 komst hæstiréttur Delhi að því að bann gegn samkynja kynlífi gengi gegn stjórnarskrá landsins en hæstiréttur Indlands endurvakti bannið 2013 og sagði að ábyrgðin á lagabreytingum hvíldi á herðum þingsins.

Ákærur á grundvelli laganna eru fátíðar en aðgerðasinnar segja spillta lögreglu nota þau til að áreita og ógna hinsegin fólki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert