Sér enga ástæðu til að hætta loftárásum

Rússar munu ekki hætta loftárásum í Sýrlandi fyrr en hryðjuverkasamtök eins og Ríki íslams og Jabhat al-Nusra eru sigruð, segir Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, en hann er staddur í Óman. Hann segist heldur ekki sjá neina ástæðu til þess fyrir Rússa að hætta loftárásunum. 

Yfirmaður regnhlífarsamtaka stjórnarandstöðuflokkanna í Sýrlandi, forsætisráðherrann fyrrverandi Riad Hijab, mun koma til Genfar í dag þar sem friðarviðræður standa yfir. Koma hans til friðarviðræðnanna þykir afar jákvætt skref en lítið hefur miðað í samkomulagsátt varðandi frið í Sýrlandi.

Yfir 250 þúsund manns hafa dáið frá því borgarastríðið braust út og margar milljónir Sýrlendinga eru á flótta innanlands sem utan. Nánast á hverjum degi berast fréttir af sýrlensku fólki sem drukknar á flóttanum og öðrum sem svelta í hel í heimalandinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert