Repúblikanar ráða ríkjum

Heidi Cruz, eiginkona Ted, áritar kosningaspjöld í Iowa. Fleiri ríki …
Heidi Cruz, eiginkona Ted, áritar kosningaspjöld í Iowa. Fleiri ríki eru nú á bandi repúblikana en demókrata. AFP

Fleiri ríki Bandaríkjanna eru nú á bandi repúblikana en demókrata frá því að Gallup hóf mælingar á fylgi flokka á landsvísu. Tuttugu af fimmtíu ríkjum eru nú afgerandi fylgjandi repúblikönum eða hallast að þeim á móti aðeins fjórtán ríkjum sem eru á bandi demókrata. 

Gallup skilgreinir ríki sem afgerandi stuðningsmenn annars flokksins ef meira en 10% munur er stuðningi við þá. Ríki eru sögð hallast að öðrum flokknum ef bilið er 5-10%. Í hinum ríkjunum sextán er mjórra á mununum.

Gríðarlegar breytingar hafa orðið frá árinu 2008 þegar Barack Obama vann forsetakosningarnar. Þá voru 35 afgerandi eða hölluðust að Demókrataflokknum en aðeins fimm voru á bandi repúblikana. Á sjö ára tímabili fóru demókratar því úr því að hafa þrjátíu ríkja forskot í það að vera sex ríkjum á eftir repúblikönum.

„Þetta er í fyrsta skipti sem það hafa verið fleiri repúblikanaríki en demókrata á þeim átta árum sem Gallup hefur fylgst með stuðningsmönnum flokkanna eftir ríkjum,“ segir Jeffrey M. Jones frá Gallup.

Þessi sveifla endurspeglast í hlutdeild flokkanna í stjórn landsins. Repúblikanar hafa nú stærsta meirihluta þingsæta í fulltrúadeild þingsins frá því í seinni heimsstyrjöldinni og hafa fjögurra sæta meirihluta í öldungadeildinni.

Þá á flokkurinn 31 ríkisstjóra, nærri því tvo af hverjum þremur í landinu. Meirihluti þeirra í ríkisþingunum er enn meiri en í landsþinginu. Repúblikanar ráða þannig ríkjum í þremur af hverjum fjórum ríkisþingum í Bandaríkjunum.

Frétt Washington Post af viðsnúningi í fylgi bandarísku flokkanna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert