IKEA á ekki „IKEA“

Það fylgir ekki sögunni hvað IKEA hyggst nú fyrir.
Það fylgir ekki sögunni hvað IKEA hyggst nú fyrir.

Sænska húsgagnafyrirtækið IKEA hefur misst einkaleyfið á eigin nafni í Indónesíu eftir að hæstiréttur landsins úrskurðaði að vörumerkið tilheyrði innlendu fyrirtæki, Intan Khatulistiwa Esa Abadi.

Hið sænska fyrirtæki skráði vörumerkið „IKEA“ árið 2010 en dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið hefði ekki notað vörumerkið í viðskiptaskyni í þrjú ár og þar með fyrirgert rétti sínum til þess.

Dómur féll í málinu í maí í fyrra en var birtur í gær. IKEA starfrækir eina verslun á Indónesíu, sem var opnuð í Tangerang árið 2014.

Samkvæmt talsmanni hæstaréttar var dómurinn ekki samhljóma. Einn þriggja dómenda sagði að vörumerkjalögin næðu ekki til stórfyrirtækja á borð við IKEA, sem er mun stærra en Intan Khatulistiwa Esa Abadi.

Indónesíska fyrirtækið höfðaði málið um mitt ár 2014, þegar unnið var að opnun sænska IKEA. Undirréttur komst að sömu niðurstöðu og hæstiréttur, og skipaði sænska IKEA að hætta að nota nafnið „IKEA“, sem er skammstöfun á nafni stofnandans Ingvar Kamprad, bænum Elmtaryd og þorpinu Agunnaryd, þar sem Kamprad ólst upp.

Ekki fylgir sögunni hvað IKEA hyggst gera varðandi reksturinn í Tangerang.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert