Myndir af meintri misnotkun birtar

AFP

Bandarísk hermálayfirvöld opinberuðu í gær tæplega 200 ljósmyndir sem sýna ýmisleg meiðsli sem fangar í þeirra haldi urðu fyrir í Írak og Afganistan á fyrstu árum stríðanna þar. Í flestum tilfellum er um að ræða nærmyndir af skurðum, mari, bólgnum liðum og öðrum minniháttar meiðslum.

Ekki er hægt að bera kennsl á þá fanga sem sjást á myndunum.

Myndirnar voru opinberaðar eftir að ACLU, mannréttindasamtök í Bandaríkjunum, höfðaði mál til þess að fá um 2.000 mynda opinberað sem þau segja að sýni misþyrmingu bandarísks herliðs á föngum í sínu haldi. Myndirnar sem yfirvöld létu frá sér voru handvaldar af þeim úr þessu safni, en engar þeirra eru frá Guantanamo herstöðinni eða Abu Ghraib fangelsinu þar sem herinn hefur orðið uppvís að misþyrmingum af föngum áður.

Herinn sagði myndirnar upprunnar frá sjálfstæðum glæparannsóknum á meintu misferli hermanna. Þær rannsóknir hafi staðfest fjórtán ásakanir um slíkt en 42 hafi verið óstaðfestar. Talsmaður hersins vildi þó ekkert gefa upp frekar um myndirnar og tengsl þeirra, ef nokkur, við þær rannsóknir sem fóru fram og leiddu til refsinga yfir 65 hermönnum, allt frá ávítum til lífstíðarfangelsis.

Myndirnar handvaldar af yfirvöldum

Ríkisstjórn Obama samþykkti að birta myndirnar árið 2009 en skipti svo um skoðun og Bandaríkjaþing setti í kjölfarið lög sem veittu varnarmálaráðherra heimild til þess að gera undanþágu frá upplýsingalögum fyrir þær myndir sem gætu stefnt þjóðaröryggi í voða ef þær yrðu birtar. Safnið sem var opinberað í gær var ekki talið gera það lengur.

ACLU hafa heitið því að berjast áfram fyrir birtingu allra myndanna. „Hinar enn-leynilegu ljósmyndir eru besta sönnunin á því alvarlega ofbeldi sem átti sér stað í herfangelsum,“ sagði Jameel Jaffer, hjá ACLU. „Handvalin birting ríkisstjórnarinnar á þessum myndum veldur hættu á því að almenningur verði afvegaleiddur hvað varðar raunverulega útbreiðslu þessarar misnotkunar.“

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert