Framganga frambjóðenda óhugnanleg

John McCain er ekki ánægður sína menn.
John McCain er ekki ánægður sína menn. AFP

John McCain, öldungardeildarþingmaður Repúblíkanaflokksins sem bauð sig fram gegn Barack Obama árið 2008, hefur fordæmt slaginn um útnefningu flokksins til forsetaframboðs.

McCain sagði í dag óhugnanlegt að frambjóðendur væru að skiptast á persónulegum móðgunum fremur en að ræða mál sem raunverulega skipta máli. Sjálfur er hann formaður hernaðarmálanefndar Bandaríkjaþings og lét ummælin falla eftir að Philip Breedlove, yfirmaður herafla NATO í  Evrópu gaf nefndinni mat sitt á aukinni árásargirni Rússa og sívaxandi vanda Sýrlands.

„Ég vildi óska að sérhver Bandaríkjamaður gæti hafa heyrt vitnisburð þinn í dag. Kannski myndum við þá búa að framboðum sem einblína ekki á stærð eyrna fólks og hvort það svitni eða ekki,“ sagði McCain.

Þar vísaði hann í nýjustu persónuárásirnar milli Donald Trump og Marco Rubio en Trump sagði  Rubio hafa „afar stór eyru“ og gerði grín að honum fyrir að svitna. Rubio hefur gefið í skyn að Trump hafi pissað á sig á meðan á kappræðum stóð og beint athygli að „smáum höndum“ og „gervibrúnku“ milljarðamæringsins.

„Það er óhugnanlegt,“ sagði McCain. „Ég vildi óska að sérhver Bandaríkjamaður gæti heyrt mat þitt á aðstæðunum og kannski myndum við þá einbeita okkur að einhverjum þessa vandamála.“

Forkosningar standa nú yfir í 13 ríkjum Bandaríkjanna og gætu úrslitin ráðið því hverjir frambjóðendur repúblíkana og demókrata verða en Trump og Hillary Clinton leiða slaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert