Ringulreið meðal repúblíkana

Trump veifar kjósendum í Kentucky.
Trump veifar kjósendum í Kentucky. AFP

Sigurganga Donald Trump í átt að útnefningu Repúblíkanaflokksins til forseta skapaði mikla ringulreið innan flokksins í dag á sama tíma og demókratar sameinuðust um stuðning við Hillary Clinton.

Báðir frambjóðendurnir voru augljósir sigurvegarar ofurþriðjudagsins svokallaða sem var sá mikilvægasti í forkosningunum.

Trump var sigursæll í sjö af 11 ríkjum og helstu keppinautar hans, Ted Cruz og Marco Rubio eru nú í mun veikari stöðu en áður. Annar keppinautur um útnefninguna, Ben Carson, tilkynnti í dag að hann „fengi ekki séð pólitíska leið áfram“. Dragi Carson sig í hlé verða Trump, Cruz, Rubio og John Kasich einir eftir í kapphlaupinu um útnefninguna.

Clinton bar sigur úr býtum í jafnmörgum ríkjum og Trump gegn Bernie Sanders. Með sigrinum virðist Clinton hafa gulltryggt sér stuðning flokks síns en meðal repúblíkana má greina aukin klofning vegna velgengni Trump sem hefur örvað óánægða kjósendur en einnig opnað djúp sár fordóma og misréttis.

Í því sem milljarðamæringurinn skaust fram úr öðrum frambjóðendum tóku annars dyggir repúblíkanar að ræða möguleikann á því að flokkurinn klofni fari Trump með sigur af hólmi.

„Ég held að það sé mjög raunverulegur möguleiki,“ sagði Christine Todd Whitman, fyrrum ríkisstjóri New Jersey á NPR.

„Það er mikið af fólki sem getur bara ekki séð sig styðja Trump. Nú er Mitch McConnell, leiðtogi öldungardeildar meirihlutans, að segja frambjóðendum úr þinginu að ef þetta sé vandamál fyrir þeim geti þeirlátið vaða og auglýst gegn honum jafnvel þó hann sé forsetaframbjóðandi flokksins.“

Cruz og Rubio hafa báðir hrint af stað herferðum sem beinast að kjósendum repúblíkana og miða að því að stöðva Trump.

Stúlka með veggspjald af Hillary Clinton eftir kosningasamkomu í dag.
Stúlka með veggspjald af Hillary Clinton eftir kosningasamkomu í dag. AFP

Tortímandi ósigur framundan

Á þriðjudag sigraði Cruz í heimaríki sínu Texas sem og í Oklahoma og Alaska. Rubio sigarði aðeins í einu ríki, Minnesota. Þessir sigrar gerðu lítið til að draga úr áhyggjum valdamikilla stuðningsmanna þeirra innan flokksins sem óttast að hann stefni í átt að tortímandi ósigri í forsetakosningunum.

Í sigurræðu Trump á þriðjudag lagði hann sinn vanalega gorgeir til hliðar til að rétta leiðtogum flokksins sáttahönd.

„Ég held að við munum ná til fleiri og verðum sameinaðri. Ég held að við verðum mun stærri flokkur,“ sagði Trump. Aðeins fáeinum klukkutímum síðar hafði hlýleikinn gufað upp

„Marco Rubio tapaði stórt í gærkvöldi. Ég sigraði hann jafnvel í Virginíu, þar sem hann eyddi svo miklum tíma og pening,“ skrifaði Trump á Twitter í dag. „Nú eru yfirmenn hans örvæntingarfullir og reiðir.“

Cruz notaði sigra sína til að slá því föstu að hann væri eini Repúblíkaninn sem gæti sigrað Trump.

„Fyrir þá frambjóðendur sem hafa enn ekki unnið ríki, sem hafa ekki staflað upp verulegum fjölda fulltrúa, ég bið ykkur að íhuga af guðrækni að koma saman og sameinast,“ sagði hann áður en Rubio nældi í sigur í Minnesota. Rubio endaði daginn í Flórída og þykir það til merkis um að hann leggi allt undir fyrir sigur í heimaríki sínu þar sem kosið verður 15. mars.

Þrátt fyrir að ljóst þyki að Clinton muni hljóta útnefningu demókrata hefur Bernie Sanders lýst því yfir að hann ætli að bjóða sig áfram fram í öllum þeim ríkjum sem eftir eru í forkosningunum.

Ted vill að aðrir repúblíkanar treysti á hann til að …
Ted vill að aðrir repúblíkanar treysti á hann til að sigra Trump. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert