Evangelistar fylkja sér á bak við Trump

Donald Trump stillir sér upp fyrir myndir í kristnum háskóla …
Donald Trump stillir sér upp fyrir myndir í kristnum háskóla sem hann heimsótti á dögunum. AFP

Þrátt fyrir að margir helstu leiðtoga evangelista í Bandaríkjunum hafi fordæmt auðjöfurinn Donald Trump kemur stór hluti stuðningsmanna hans í forvali Repúblikanaflokksins úr söfnuðum þeirra. Einn leiðtoganna segir kristna kjósendur láta reiði stjórna sér frekar en að treysta á guð.

Trump hefur notið mestrar hylli íhaldsmanna sem kjósa í forvali repúblikana fram að þessu og virðist fátt geta stöðvað hann í að hljóta útnefningu flokksins sem forsetaframbjóðandi hans. Auðkýfingurinn er orðljótur, tvífráskilinn og hefur slegið úr og í um fóstureyðingar og hjónabönd samkynhneigðra í gegnum tíðina en þau er hjartans mál evangelista.

Því kemur á óvart að hvítir evangelistar hafi að miklu leyti fylkt sér að baki Trump á sama tíma og áberandi trúarleiðtogar hafa deilt hart á frambjóðandann. Þannig hefur Trump náð um þriðjungi atkvæða þeirra sem skilgreina sjálfa sig sem endurfædda kristna menn í þeim ríkjum þar sem forvöl hafa þegar farið fram. Í átta ríkjum hefur Trump náð meira fylgi í þessum ranni en Ted Cruz sem átti að vera frambjóðandi íhaldssamra kristinna manna.

John Stemberger, yfirmaður Fjölskyldustefnuráðs Flórída sem er undirstofnun íhaldssamra kristinna samtaka, segir að margir evangelistar hafi breyst að undanförnu. Þeir hafi látið ákveðina siðferðilega mælikvarða sem þeir hafa beitt á frambjóðendur hafi verið kastað út um gluggann.

„Evengelistar horfa minna og minna á þessi mál. Þeir eru orðnir of veraldlega sinnaðir og leyfa reiði og pirringi stjórna sér frekar en að treysta á guð,“ segir Stemberger sem hefur gagnrýnt Trump harðlega.

Líkt og uppgangur Trump í forvalinu hefur sýnt að gjá er á milli forystu Repúblikanaflokksins og almennra kjósenda hans virðist stuðningur evangelista við auðjöfurinn sýna að sambærilegur viðskilnaður sé á milli leiðtoga kirkjudeilda þeirra og safnaðarmeðlima.

Á meðan kirkjunnar menn hvetja söfnuði sína til þess að dæma frambjóðendur eftir gildum Biblíunnar líti evangelistar frekar til frambjóðenda sem getur tryggt öryggi þeirra gegn Ríki íslams, frjálslyndi, vaxandi veraldarhyggju og ótryggu efnahagsástandi. Því virðist litlu skipta þó að Trump hafi rangt eftir Biblíunni eða viðurkenni að hafa aldrei leitað fyrirgefningar guðs á syndum sínum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka