Palin með fjöláverka

Eiginmaður Sarah Palin, fyrrverandi ríkisstjóra í Alaska, Todd Palin, er á gjörgæslu en hann er með fjöláverka eftir slysið í gær. Eiginkona hans skrifaði í nótt færslu á Facebook þar sem hún fer yfir líðan hans.

Að sögn Palin þá er hann með fjölmörg brotin bein og brákuð rifbein, brotið axlarblað, viðbeinsbrotinn, með hnéáverka og eins féll saman annað lunga hans. Hann er í aðgerð þegar hún skrifar færsluna í nótt og þakkar fólki fyrir stuðninginn sem fjölskyldan hefur fengið.

Sarah Palin mætti á framboðsfund hjá Donald Trump í Tampa í gær áður en hún snéri aftur til Alaska til þess að dvelja við hlið eiginmannsins en hann slasaðist í vélsleðaslysi í gær. Palin, sem var varaforsetaefni Repúblikanaflokksins í forsetakosningunum 2008 hefur lýst yfir stuðningi við Trump í forvali flokksins. 

Hún lét mótmælendur heyra það í gærkvöldi á fundinum í Tampa en undanfarið hafa mótmælendur haft sig frammi við fundarstaði Trumps. Kallaði hún þá glæpamenn sem ættu að fara fjandans til (lausleg þýðing á Punk-ass, little thuggery). Hún segir mótmælin ekkert annað en tímaeyðslu af þeirra hálfu. Hún spurði einnig hvað fjölmiðlar væru að hugsa með því að segja frá þessu og standa með mótmælendum.

Ítrekað hefur komið til átaka á milli stuðningsmanna Trumps og andstæðinga hans að undanförnu og þurfti Trump að hætta við samkomu með stuðningsmönnum sínum í Chicago um helgina. 

Frétt CNN

Todd og Sarah Palin
Todd og Sarah Palin AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert