Kennsl borin á manninn

Víðtækar aðgerðir eru enn í gangi í Brussel og hættan er enn til staðar, segir forsætisráðherra Belgíu Charles Michel í viðtali við sjónvarpsstöðina RTL í morgun. Tveir eru á flótta en lögregla skaut einn til bana í skotbardaga í friðsælu hverfi Brusselborgar í gær. Lögreglan hefur handtekið tvo í tengslum við málið samkvæmt fréttum einhverra fjölmiðla en afar misvísandi fréttir af málinu eru í gangi. 

Ýmsar getgátur eru á lofti í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum um hverjir tvímenningarnir eru. Einhverjir herma að um bræður sé að ræða en Michel vildi ekki tjá sig um það að öðru leyti en aðgerðin væri í fullum gangi. Hann útilokar ekki að viðbúnaðarstig verði hækkað í borginni. 

Uppfært klukkan 11

Maðurinn sem var skotinn til bana af lögreglunni í gær var með fána Ríkis íslams, Kalashnikvo riffil og öfgarit sér við hlið (rit salanfista) þegar lögreglan kom inn í húsið og fann lík mannsins. 

Thierry Werts, talsmaður hryðjuverkadeildar lögreglunnar segir að kennsl hafi verið borin á manninn. Hann heitir Mohammed Belkaid, Alsírbúi sem dvaldi með ólöglegum hætti í Belgíu. Mohammed Belkaid er fæddur árið 1980 og er því 35 eða 36 ára gamall. Hann var skotinn til bana af skyttu lögreglunnar þegar hann skaut á lögreglumenn út um glugga íbúðarinnar. Hann hafði einu sinni komist í kast við lögin en það var í tengslum við þjófnað.

Tveir menn sem voru í íbúðinni sem leitað var í náðu að að flýja, segir Werts og þeirra er leitað. 

Í frétt frönsku sjónvarpsstöðvarinnar BFM kemur fram að maðurinn sem leigði íbúðina við Rue de Dries ( þar sem lögreglan ætlaði að gera húsleit í gær en var svarað með skothríð) hefði einnig leigt eitt af leynistöðum þeim sem hryðjuverkamennirnir notuðu í tengslum við árásina í París í nóvember sem kostaði 130 manns lífið. Um sé að ræða 27 ára gamlan Belga af marókókóskum uppruna.

Þar er um að ræða hús í Charleroi, um 60 km frá Brussel, en þar fann lögregla lífsýni úr einum þeirra sem framdi sjálfsvígsárás við þjóðarleikvang Frakka, Stade de France, í nóvember, Bilal Hadfi og eins fundust lífsýni úr Abdelhamid Abaaoud sem talið er að hafi skipulagt hryðjuverkin í París.

Það kom lögreglu verulega á óvart þegar þeim var svarað með skothríð í Forest (Vorst) hverfinu í Brussel í gær. Um er að ræða afar rólegt hverfi. 

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert