Buðust til að segja af sér

Innanríkis- og dómsmálaráðherrar Belgíu buðust til þess að segja af sér í kjölfar árásanna í Brussel en fengu synjun frá forsætisráðherranum, Charles Michel. Þetta kemur fram í belgískum fjölmiðlum í dag.

Hvorki hefur náðst í innanríkisráðherrann, Jan Jambon, eða dómsmálaráðherrann, Koen Geens, vegna málsins í dag. 

Ljóst þykir að tengsl séu á milli árásanna í París og Brussel og hafa belgísk yfirvöld sætt harðri gagnrýni eftir að tyrknesk yfirvöld greindu frá því í gær að Tyrkir hefðu vísað Ibrahim el-Bakraoui, sem framdi sjálfsvígsárás á flugvellinum í Brussel, úr landi og varað belgísk yfirvöld við því að hann væri vígamaður. „Belgar hundsuðu viðvaranir okkar um að maðurinn væri útlendur vígamaður,“ sagði forseti Tyrklands, Tayyip Erdogan, í gær.

Ríkissaksóknari í Belgíu segir að gefin hafi verið út alþjóðleg handtökuskipun í desember vegna hryðjuverkabrota á hendur Khalid El Bakraoui, sem sprengdi sig upp á Maalbeek lestarstöðinni.

Í tilkynningu kemur fram að Khaild hafi verið grunaður um að hafa notað falsað nafn og skilríki til þess að leigja íbúð í borginni Charleroi sem var notuð sem bækistöð fyrir hryðjuverkahópinn sem stóð að árásinni í París í nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert