Meint nauðgun sjóliða eykur spennu

Í febrúar mótmæltu íbúar eyjarinnar frekari áformum um byggingu herstöðva …
Í febrúar mótmæltu íbúar eyjarinnar frekari áformum um byggingu herstöðva þar. AFP

Bandarískur sjóliði hefur verið ákærður fyrir meinta nauðgun á japanskri konu á eyjunni Okinawa. Heimildir AFP herma að málið gæti aukið enn meir þá spennu sem ríkir vegna veru bandaríska herliðsins á eyjunni.

Í síðari heimsstyrjöld var Okinawa vettvangur harðvítugrar orrustu á milli Japans og Bandaríkjanna. Rúmum sjötíu árum síðar ber eyjan hins vegar öxulþungan af hernaðarbandalagi ríkjanna. Þar er nú meira en helmingur þeirra 47 þúsund bandarísku hermanna sem staðsettir eru í Japan.

Að þessu sinni hefur saksóknari ákært hinn 24 ára Justin Castellanos, sem er meðlimur í landgönguliði Bandaríkjaflota, US Marine Corps. Castellanos var handtekinn í síðasta mánuði fyrir meinta nauðgun á japönskum ferðamanni á meðan hún var meðvitundarlaus á hóteli í borginni Naha.

Rændu stúlku og nauðguðu

Glæpir Bandaríkjamanna á Okinawa hafa oft valdið úlfúð heimamanna.

Þrír bandarískir hermenn rændu tólf ára stúlku á eyjunni árið 1995 og nauðguðu henni hrottalega. Gífurleg mótmæli brutust út í kjölfarið og ráðamenn í Washington lofuðu að efla heragann til að koma í veg fyrir slíka glæpi og minnka um leið fótspor Bandaríkjamanna á Okinawa.

En glæpir herliðsins halda áfram að stríða stjórnmálasambandi ríkjanna og ljá eyjarskeggjum og öðrum Japönum vopn í baráttu sinni fyrir því að herliðið víki af japönsku landi. Flatarmál eyjarinnar er minna en 1% af heildarflatarmáli Japans, en á sama tíma eru þar um 75% bandarískra herstöðva í landinu.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka