Er brakið úr MH370?

Leitin að farþegaþotunni er sú umfangsmesta sem fram hefur farið. …
Leitin að farþegaþotunni er sú umfangsmesta sem fram hefur farið. Hún hefur þó enn engum árangri skilað. AFP

Í þriðja sinn á stuttum tíma hefur fundist brak sem talið er að sé úr farþegaþotu Malaysia Airlines, flugi 370, sem hvarf sporlaust í mars árið 2014. Nú rak brak að ströndum eyríkisins Máritíus í Indlandshafi. Um borð í vélinni voru 239 manns.

Brakið fannst á strönd Rodrigues-eyju og voru það tveir ferðamenn sem komu fyrstu auga á það. Þeir tóku það með sér á hótelið, segir starfsmaður þess í samtali við CNN. Nú er það hins vegar í vörslu lögreglunar. 

Í júlí á síðasta ári fannst brak á Reunion-eyju, skammt suðvestur af Máritíus. Það var mögulega talið vera úr þotunni. Sömu sögu er að segja um brak sem fannst í Mósambík í febrúar og við strendur Suður-Afríku í mars. 
Yfirvöld í Ástralíu og Malasíu vinna saman að rannsókn hvarfsins og hafa ekki staðfest að brakið sem fundist hefur sé úr þotunni. Þau segja það enn til rannsóknar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert