Njósna um samborgarana

Konum og stúlkum ber að hylja háls og höfuð á …
Konum og stúlkum ber að hylja háls og höfuð á almannafæri. AFP

Lögregluyfirvöld í Tehran, höfuðborg Íran, hafa 7.000 einstaklinga í sinni þjónustu sem hafa það hlutverk að tilkynna um meint siðbrot íbúa. Þau mál sem „sveitinni“ ber að tilkynna varða m.a. andfélagslega hegðun og konur sem hylja ekki höfuð sitt.

Að sögn Hossein Sajedinia, lögreglustjóra Tehran, hefur það forgang að uppræta glæfraakstur, áreitni í garð kvenna og hávaðamengun. Þá þykir það alvarlegt brot þegar konur fjarlægja höfuðslæðuna þegar þær setjast inn í bíl.

Ummæli Sajedinia voru birt af Mizan Online, fréttaþjónustu dómsvaldsins.

Í Íran ber konum að hylja höfuð og háls á almannafæri en á tíunda áratug síðustu aldar hófu viðhorf að breytast og konur á ákveðnum svæðum, sérstaklega þeim efnameiri, fóru að beygja reglurnar.

Siðgæðisvörðum lögreglunnar ber að tilkynna öll slík tilvik, að sögn Sajedinia, en þeim er ekki heimilt að hafa bein afskipti af meintum brotamönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert