Lést eftir árás í menntaskóla

Delaware-lögreglan rannsakar málið.
Delaware-lögreglan rannsakar málið. Af Wikipedia

Sextán ára stúlka lést í gær eftir að hafa orðið fyrir árás stúlkna inni á salerni í menntaskóla í bænum Wilmington í Delaware-ríki.

„Það voru átök, sem upphaflega voru milli tveggja einstaklinga, og minn skilningur er sá að svo hafi fleiri bæst við og ráðist á þessa einu manneskju,“ segir starfsmannastjóri bæjarstjórans í Wilmington í samtali við fjölmiðla um málið.

Fljótlega var ljóst að stúlkan hefði slasast alvarlega og var hún flutt með þyrlu á sjúkrahús þar sem hún lést skömmu síðar.

Í frétt CNN segir að slagsmál hafi brotist út snemma um morguninn inni á salernum á aðalhæð skólans. Skólastjórinn tilkynnti þetta á blaðamannafundi en sagði ekki hver upptök slagsmálanna hefðu verið. Tveir nemendur hafa verið fluttir á lögreglustöð til að gefa skýrslu. Lögreglan telur ekki að vopn hafi verið notað í árásinni.

Á meðan stúlkan var flutt út af salerninu var öðrum nemendum skólans haldið inni í stofum sínum. Um tveimur tímum síðar var þeim leyft að fara heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert