Frelsuðu sirkusljón og flytja til Afríku

Ricardo er eineygður. Hann var í haldi í fjölleikahúsi í …
Ricardo er eineygður. Hann var í haldi í fjölleikahúsi í Perú. Ljósmynd/ADI

Zeus, Shakira, Ricardo  og 30 önnur ljón til viðbótar eru að fara í ferðalag lífs síns. Ljónunum 33 var bjargað úr fjölleikahúsum í Perú og Kólumbíu en verða nú flutt til Afríku þar sem þau munu eyða því sem eftir er ævi sinnar í friðlandi.

Í frétt CNN kemur fram að þetta séu mestu ljónaflutningar í lofti sem gerðir hafa verið. Flutningarnir eru skipulagðir af dýraverndunarsamtökunum Animal Defenders International. Samtökin hafa unnið með stjórnvöldum í Perú og Kólumbíu að því að banna notkun villtra dýra í fjölleikasýningum.

Ljónin eru mörg hver við slæma heilsu. 

„Þessi ljón hafa gengið í gegnum helvíti á jörð og nú eru þau á leið heim í paradís,“ segir formaður ADI, Jan Creamer við CNN. „Þau eru að fara á þann stað sem náttúran valdi upphaflega sem þeirra heimkynni á jörðu.“

Ástand ljónanna var mjög slæmt er þau voru tekin úr fjölleikahúsunum. Búið var að fjarlægja klær margra þeirra og brjóta tennur þeirra. Ljónið Ricardo er eineygður og annað ljón er nánast orðið blint.
24 ljónum var bjargað úr húsleit sem gerð var í fjölleikahúsi í Perú. Þar voru dýrin geymd í búrum inni í vörubílum. Níu ljón til viðbótar komu úr fjölleikahúsi í Kólumbíu en eigendur þess afhentu dýrin af fúsum og frjálsum vilja.
Dýrin verða flutt í friðland í Limpopo í Suður-Afríku. Friðlandið er í einkaeigu fjölskyldu. Þar eru nú þegar sex ljón og tvö tígrisdýr en landsvæðið er nægilega stórt til að þar geti mun fleiri dýr haldið til.
Ljónin verða flutt með stórri flutningavél. Hún mun fyrst sækja dýrin níu til Kólumbíu og svo fara til Perú og sækja hin 24.  Um borð verður teymi sérfræðinga sem um gæta dýranna og fylgjast með líðan þeirra á leiðinni til Afríku.
Fé til flutningsins var safnað með hópfjármögnun á netinu. Enn vantar upp á að ferðin sé fjármögnuð 100%.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert