Réðust inn í þinghúsið

Frá vettvangi sprengjuárásar í Bagdad í morgun.
Frá vettvangi sprengjuárásar í Bagdad í morgun. AFP

Þúsundir mótmælenda ruddust inn á Græna svæðið í Bagdad í dag og þaðan inn þinghúsið. Á Græna svæðinu eru helstu stjórnarbyggingar landsins. Svæðisins er vandlega gætt af vopnuðum vörðum. Mótmælendur höfðu safnast saman við byggingarnar þar sem þingmönnum hafði enn á ný ekki tekist að samþykkja nýja ráðherra.

Stjórnmálaástandið í Írak hefur síðustu vikur einkennst af mikilli ólgu. Afsaknar forseta þingsins hefur verið krafist en hann er sakaður um að standa í vegi fyrir því að forsætisráðherra landsins geti skipt út nokkrum ráðherrum. 

Óeirðirnar í morgun fylgdu í kjöfar sprengjuárásar á sjíta-múslíma í Bagdad. 23 féllu í árásinni. 

Á Græna svæðinu má m.a. finna þinghúsið, skrifstofur forsætisráðherra og sendiráð, m.a. það bandaríska og það breska. 

Mótmælendurnir rifu niður múrsteinsveggi í kringum Græna svæðið og komust þannig inn. Síðan streymdu þeir að þinghúsinu. Aðrir úr hópnum reyndu að róa ástandið og vildu friðsamleg mótmæli.

Öryggisverðir voru á svæðinu en reyndu ekki að koma í veg fyrir að mótmælendur kæmust inn fyrir, að sögn fréttamanns AFP. Mótmælendurnir settu m.a. gaddavír á vegi til að koma í veg fyrir að þingmenn, sem reyndu að komast leiðar sinnar, kæmust út. Nokkrar bifreiðir þingmanna voru skemmdar.

Ekki náðist í dag þingmeirihluti fyrir breytingum í ráðherraliðinu sem forsætisráðherrann hefur lagt til. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert