Gagnrýna móðgandi spurningu

Skjáskot

Aðgerðasinnar hjá góðgerðasamtökunum Mencap hafa kallað eftir því að stefnumótasíðan OkCupid endurskoði spurningalista, þar sem m.a. er spurt að því hvort viðkomandi telji að heimurinn væri betur settur ef einstaklingum með lága greindarvísitölu væri bannað að fjölga sér.

Umræddur spurningalisti er notaður til að greina svarendur, þ.e. væntanlega notendur síðunnar. Amy Clarke, einn starfsmanna Mencap, sem jafnframt á við námsörðugleika að etja, segir spurninguna hneykslanlega og móðgandi.

Með því að spyrja hennar, segir hún, „láta þeir virðast sem það sé í lagi að svara „já“, sem það er ekki.“

„Ef þeir spyrðu sömu spurninga um fólk af ólíkum kynþáttum eða kynhneigð þætti það hneyksli, og það sama ætti að eiga við um fólk sem á við námsörðugleika að etja,“ segir Clarke.

Ciara Lawrence, sem er í sömu sporum og Clarke, segir viðhorf fólks enn einkennast af neikvæðni og skilningsleysi.

„Það eru svo margir sem hugsa „þú getur ekki“, „þú munt ekki“. En „ég get“ og „ég hef“, nú er ég gift, er í frábæru starfi og lifi sjálfstæðu og hamingjusömu lífi.“

Lawrence segir foreldra sem glíma við námsörðugleika ekki síðri foreldra en aðrir.

Guardian hefur eftir fulltrúa OkCupid að spurningakerfið sé hannað með það í huga að gera notendum kleift að skilja áhugamál og gildi annarra notenda, og meta hvort þeir eiga samleið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert