Laug til um krabbameinið

Belle Gibson hefur komið fram í fjöldamörgum viðtölum og sagt …
Belle Gibson hefur komið fram í fjöldamörgum viðtölum og sagt frá veikindum sínum. Þau reyndust uppspuni.

Ástralskur rithöfundur og bloggari sem gerði sér upp banvænt krabbamein í heila, verður kærð fyrir blekkingar sínar.

Í frétt BBC um málið segir að Belle Gibson hafi öðlast frægð í heimalandi sínu Ástralíu eftir að hún sagðist hafa sigrast á krabbameini með því að nota náttúrulækningar í stað krabbameinslyfja.

Hún bjó til app og gaf út matreiðslubók en viðurkenndi síðar að hún hefði aldrei verið greind með krabbamein.

Neytendastofa í Victoriu í Ástralíu ætlar að sækja Gibson til saka fyrir að brjóta neytendalög í landinu. Neytendastofan segist hafa rannsakað ítarlega mál Gibson og hafi í kjölfarið ákveðið að kæra hana. 

Gibson hélt því fram að hún hefði sigrast á krabbameininu með náttúrulyfjum, súrefnismeðferð og glútenlausu mataræði. Hún hagnaðist svo á þeirri frægð sem hún hlaut með því að búa til app og matreiðslubók. Þá hét hún því að deila hagnaðinum með góðgerðarsamtökum.

En góðgerðarsamtökin fengu enga peninga og þá var farið að skoða málið. Gibson játaði svo í viðtali að allt hefði þetta verið uppspuni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert