Lofaði afrek Norður-Kóreu í kjarnorkumálum

Kim Jong-un
Kim Jong-un AFP

Leiðtogi Norður Kóreu, Kim Jong-un lofaði afrek þjóðar sinnar þegar það kemur að kjarnorkuvopnum í ávarpi sínu á flokksþingi Verkamannaflokksins í dag. Þúsundir fulltrúa flokksins hlustuðu á ávarp leiðtogans en þetta er í fyrsta skipti í 36 ár sem flokkurinn heldur flokksþing. Sagði Kim Jong-un að „fordæmalausum árangri hafi verið náð“.

Fyrr á þessu ári tilkynntu stjórnvöld í landinu að þau hefðu prófað kjarnorkuvopn og sent eldflaug út í geim.

Að mati sérfræðinga er flokksþingið sem fram fer um helgina tækifæri fyrir Jong-un að styrkja völd sín í landinu.

Rúmlega hundrað erlendum blaðamönnum var boðið á þingið en máttu ekki vera viðstaddir sjálfan fundinn.

Fréttirnar af ummælum Jong-un koma frá ríkismiðli landsins. Litlar upplýsingar hafa fengist um dagskrá þingsins en til stendur að kjósa nýja miðstjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert