Segja að systir Kim Jong-un fái stöðuhækkun

Kim Jong-Un.
Kim Jong-Un. AFP

Yfirvöld í Norður-Kóreu halda nú fyrsta flokksþing stjórnarflokksins í 36 ár þar sem Kim Jong-un mun að mati sérfræðinga styrkja stjórn sína yfir landinu.

Vel er fylgst með þinginu vegna mögulegra stefnubreytinga eða breytinga innan ríkisstjórnarinnar. Kim er talinn ætla að ítreka kjarnorkuáætlanir sínar á þinginu en því hefur verið haldið fram að þjóðarleiðtoginn muni framkvæma sína fimmtu kjarnorkutilraun á næstunni. Erlendum blaðamönnum hefur verið boðið á staðinn en mega ekki fara inn á flokksþingið.

Götur höfuðborgarinnar Pyongyang hafa verið þrifnar í tilefni þingsins og mátti sjá almenna borgara leggja blóm á torg borgarinnar. Göturnar eru skreyttar með fánum Verkamannaflokksins en á þeim stendur m.a. að leiðtogarnir fyrrverandi Kim Il-sung og Kim Jong-il „verði alltaf með okkur“ og að „höfuðstöðvar kóresku byltingarinnar“ verði verndaðar  „með lífum okkar“.

Þetta er sjö­unda flokksþing Verka­manna­flokks­ins en það fyrsta í 36 ár.  Ekki er mikið vitað um dagskrá  þingsins en að sögn blaðamanns BBC á staðnum er fylgst gaumgæfilega með öllum fulltrúum fjölmiðla. Evens skrifar að Kom Jong-un sé inni á þinginu, umkringdur lífvörðum.

Útlendingar á staðnum tala nú um að það sé hálfgerður uppgangstími í landinu með fjölgun markaða og lítilla búða sem eru nú á hverju horni borgarinnar. Verslun var eitt sinn bönnuð í landinu með öllu eða látnar starfa á laun undir kerfi sem bannaði öll viðskipti.

Í dag stjórna yfirvöld þó ennþá hvað fólk fær að kaupa mikið og að sögn Evans eru það alls 650 grömm af maís, hrísgrjónum og kjöti á dag.

Markmið þingsins sem stendur nú yfir er ekki vitað en sérfræðingar telja líklegt að Kim Jong-un sé að nota tækifærið til þess að lýsa yfir svokallaðri „byongjin“ stefnu sem á að ýta undir efnahagsþróun í landinu og kjarnorkustarfsemi. Á þinginu verður jafnframt kosin ný miðstjórn flokksins.

Vel verður fylgst með hvort að Kim Jong skipi einhverja nýja meðlimi ríkisstjórnarinnar en sérfræðingar telja að nú sé kominn tími á að systir hans, Kim Yo-jong fái einhverskonar stöðuhækkun.

Frétt BBC.

Götur Pyongyang eru skreyttar með fánum flokksins.
Götur Pyongyang eru skreyttar með fánum flokksins. AFP
Blaðamenn fyrir utan höllina þar sem flokksþingið er haldið.
Blaðamenn fyrir utan höllina þar sem flokksþingið er haldið. AFP
Myndir af leiðtogunum Kim Il-Sung og Kim Jong-Il prýða höllina.
Myndir af leiðtogunum Kim Il-Sung og Kim Jong-Il prýða höllina. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert