„Refsarinn“ líklegur sigurvegari

Stuðningsmenn Duterte
Stuðningsmenn Duterte AFP

Filippseyingar ganga til kosninga í dag en m.a. verður nýr forseti kjörinn. Fimm eru í framboði en talið er líklegast að borgarstjórinn Rodrigo „Digong“ Duterte muni bera sigur úr býtum. Duterte  hefur komið vel út úr skoðanakönnunum þrátt fyrir að vera umdeildur en mörg ummæla hans hafa vakið athygli.

Samkvæmt frétt BBC hefur kosningabaráttan einkennst af áhyggjum almennings af efnahag landsins, ójöfnuði og stjórnlausri spillingu. Rúmlega 100.000 lögreglumenn eru á vakt í dag þar sem búist er við ofbeldi í tengslum við kosningarnar. Til að mynda voru sjö manns skotnir til bana í morgun í launsátri óþekktra byssumanna í bænum Rosario, sunnan við höfuðborgina Manila.

Þá var frambjóðandi til borgarstjórnarkosninga í suðurhluta landsins myrtur á laugardaginn.

Duterte hefur verið borgarstjóri borgarinnar Davao í rúmlega 22 ár. Ummæli hans um að það ætti að refsa glæpamönnum með því að „slátra þeim“ hafa vakið athygli en hann er fyrrverandi ríkissaksóknari. Duerte hefur verið kallaður „Refsarinn“ út af viðhorfum hans til dómskerfisins.

Þá sagði hann nýlega brandara um að hann hefði átt að vera fyrstur til að fá að nauðga áströlskum trúboða sem var myrtur í uppþoti í fangelsi í landinu en baðst síðan afsökunar.

Rodrigo Duterte mun líklega vera kjörinn forseti Filippseyja í dag.
Rodrigo Duterte mun líklega vera kjörinn forseti Filippseyja í dag. AFP

Helstu andstæðingar Duterte í forsetakosningunum er Grace Poe, fyrrverandi kennari og þingmaður og Mar Roxas, fyrrverandi fjárfestir og barnabarn fyrsta forseta Filippseyja.  

Núverandi forseti landsins, Benigno Aquino, hefur varað fólk við því að kjósa Duterte og sagt að ef hann væri forseti, gæti forsetaembættið þróast út í einræðisherra.

„Ég þarf hjálp ykkar við að stöðva endurkomu hryðjuverka í landinu okkar. Ég get ekki gert það einn,“ sagði Aquino á kjósendafundi á laugardaginn.

Í dag verða jafnframt þing- og sveitarstjórnakosningar í landinu þar sem 18.000 embættismenn verða kjörnir. Þá verður einnig kjörinn varaforseti í dag.

Rúmlega 54 milljónir manna eru á kjörskrá en kjörstaðir voru opnaðir klukkan 6 í morgun að staðartíma og verður þeim lokað klukkan 17.

100.000 lögreglumenn eru á vakt á kjördag.
100.000 lögreglumenn eru á vakt á kjördag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert