Rétta yfir ákærðum hryðjuverkamönnum

Abdelhamid Abaaoud er sagður hafa stjórnað hópnum í gegnum síma …
Abdelhamid Abaaoud er sagður hafa stjórnað hópnum í gegnum síma frá Grikklandi AFP

Réttarhöld yfir sjö manns sem grunaðir eru um að tilheyra hópi sem tengist hryðjuverkamönnunum sem réðust á París og Brussel hófust í Belgíu í dag.

Fólkið var handtekið í janúar á síðasta ári þegar að lögregla réðst inn í hús í Verviers í austurhluta Belgíu. 16 hafa verið ákærðir í tengslum við hópinn en níu þeirra eru enn á flótta. Saksóknarar telja að Abdelhamid Abaaoud hafi stjórnað hópnum en hann skipulagði hryðjuverkaárásirnar á París í nóvember á síðasta ári. Hann lét lífið í skotbardaga við lögreglu nokkrum dögum síðar.

Meðal þeirra sem eiga að koma fram fyrir dómara í dag er hinn 26 ára gamli Marouane El Bali en hann neitar sök. Segir lögmaður hans að El Bali hafi einfaldlega verið á vitlausum stað á vitlausum tíma þegar hann var handtekinn í Verviers.

Öryggiseftirlit í dómssalnum er áberandi en lögmenn tveggja hinna ákærðu kvörtuðu nýlega yfir því að þeir hefðu ekki getað rætt almennilega við skjólstæðinga sína síðustu vikur vegna verkfallsaðgerða í fangelsum landsins.

Að sögn saksóknara voru meðlimir hópsins nýkomnir frá Sýrlandi þar sem þeir börðust með öfgamönnum og voru þeir að skipuleggja árásir þegar þeir voru handteknir. Birgðir af sprengiefnum og vopnum fundust í byggingunni.

Tveir grunaðir létu lífið í aðgerðum lögreglu í Verviers, Sofiane Amghar og Khalid Ben Larbi en þeir höfðu báðir farið til Sýrlands árið 2014 til þess að ganga til liðs við Ríki íslams. Aðgerðir lögreglu áttu sér stað viku eftir að íslamistar réðust á skrifstofur tímaritsins Charlie Hebdo í París þar sem tólf létu lífið.

Belgískir saksóknarar segja að hópurinn hafi verið að undirbúa árásir á lögreglu en franskur lögreglumaður sagði nýlega við fjölmiðla að áætlunin hafi verið að ræna og myrða valdamiklum embættismanni í Belgíu.

Lögregla telur að Abbaoud hafi stjórnað hópnum í Verviers í gegnum síma frá Grikklandi. Gert er ráð fyrir því að réttarhöldin standi yfir í þrjár vikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert