„Sonur þinn var píslarvottur“

Borgarastyrjöldin í Sýrlandi hefur staðið lengi yfir.
Borgarastyrjöldin í Sýrlandi hefur staðið lengi yfir. AFP

„Til hamingju,“ sagði rödd á hinum enda línunnar. „Sonur þinn var píslarvottur.“

Eftir það var skellt á og heimur Saliha Ben Ali, hrundi.

Átján ára sonur hennar, Sabri Refla, sem sagðist ætla að yfirgefa heimili þeirra í Brussel og fara til Sýrlands til að berjast fyrir Bashar al-Assad og „hjálpa munaðarlausum“, var dáinn.

„Þetta var hræðilegt,“ sagði hún tárvot í viðtali við CNN. „Þegar ég heyrði af dauða hans leið mér eins og ég hefði líka dáið.“

Var gáfaður og hamingjusamur

Sabri Refla hafði verið fenginn til starfa fyrir samtök í Brussel þar sem ungmennum er breytt í róttæklinga og þau gerð fráhverf foreldrum sínum, á sama tíma og ferðalög þeirra til Sýrlands eru fjármögnuð.

Að sögn Ben Ali var sonur hennar gáfaður og hafði áhuga á íþróttum. Hann var sá hamingjusamasti af börnunum hennar fjórum en hafði þó á sér viðkvæma hlið. Á unglingsárum sínum kvartaði hann yfir mismunun í skóla og varð smám saman trúaðri.

„Þegar hann hætti að stunda líkamsrækt, þegar hann hætti að tala við gömlu vinina sína og þegar hann var minna heima hjá sér ....þá byrjaði ég að hafa áhyggjur,“ sagði hún.

AFP


Hvarf í Sýrlandi

Hún vissi ekki að ein hættulegustu ráðningasamtök öfgasinnaðra múslima í Belgíu, Zerkani-samtökin undir stjórn hins 43 ára Khalid Zerkani, höfðu fengið son hennar yfir á sitt band.

Hann fór til Sýrlands í ágúst 2013 eftir að hafa látið fjölskylduna sína vita á Facebook. Þremur mánuðum síðar var móður hans tilkynnt um andlát hans, að því er kom fram á vef CNN.

Samkvæmt belgískum dómsskjölum fengu Zerkani og samstarfsmenn hans til sín ungmenni úr hverfinu Molenbeek í Brussel og lokuðu í leiðinni á tengsl þeirra við samfélagið.

Eitt þessara ungmenna var Najim Laachraoui, sem sprengdi sig upp á flugvellinum í Brussel 22. mars og drap 15 manneskjur.

Alls hafa rúmlega 60 grunaðir meðlimir samtakanna verið ákærðir af belgískum yfirvöldum.

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands.
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands. AFP

Dæmdir fyrir hryðjuverkatengsl

Í fyrstu réttarhöldunum í júlí 2015 voru Zerkani og 28 aðrir meðlimir samtakanna dæmdir fyrir hryðjuverkatengsl.  Einn þeirra 14 sem voru ekki viðstaddir réttarhöldin voru Abdelhamid Abaaoud og Chakib Akrouh sem tóku þátt í hryðjuverkaárásunum á París.

Zerkani hlaut 15 ára fangelsisdóm en hann hefur áfrýjað honum til hæstaréttar.

Sabri Refla var einnig ákærður því engar sannanir höfðu fundist fyrir dauða hans. Síðastliðinn þriðjudag voru 29 dæmdir fyrir aðild að hryðjuverkasamtökum. Refla var hann fundinn sekur um að hafa tekið þátt í að ráða önnur ungmenni inn í samtökin.

„Við vorum brjáluð,“ sagði faðir hans. „Börnin okkar eru fórnarlömb þeirra sem fá börnin okkar inn í svona samtök. Hvað á þetta að þýða?“

Hann vonast til að þeim sem fengu son hans inn í samtökin verði refsað, jafnvel þótt það gerist ekki í réttarsalnum. „Ég trúi ekki á dómstól mannfólksins, heldur réttlæti guðs.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert