Flóttamaður grunaður um aðild að hryðjuverkasamtökum

Frá Aleppo í Sýrlandi.
Frá Aleppo í Sýrlandi. AFP

Sýrlenskur flóttamaður var handtekinn í flóttamannabúðum í Noregi fyrir helgi, grunaður um að hafa barist fyrir herská samtök sem tengjast Al-kaída.

Maðurinn, sem er á þrítugsaldri, hefur viðurkennt að hafa verið meðlimur í al-Nusrah samtökunum. Sameinuðu þjóðirnar hafa skilgreint samtökin sem hryðjuverkasamtök.

Lögfræðingur mannsins segir í samtali við Dagsavisen að hann hafi barist gegn því sem hann taldi vera valdarán í Sýrlandi. Maðurinn kom til Noregs sem flóttamaður ásamt yngri bróður sínum í fyrra haust. Barnaverndaryfirvöld í Noregi hafa nú tekið yngri bróðirinn í sína umsjá. 

Hinn grunaði er sagður vera samvinnuþýður við lögregluyfirvöld. Hann hefur þó lýst sig saklausan af ákærunni og hefur gert grein fyrir ástæðu þess að hann barðist gegn stjórn forseta Sýrlands, Bashar al-Assads.

Er maðurinn sakaður um að hafa brotið gegn d-lið 147. gr. norsku hegningarlaganna. Um er að ræða grein sem gerir það refsivert að vera meðlimur í hryðjuverkasamtökum eða á annan hátt styðja við slík samtök með einum eða öðrum hætti. Refsirammi ákvæðisins er sex ár.

Norska öryggislögreglan hefur á undanförnum mánuðum eytt miklum kröftum í að rannsaka mögulega meðlimi í hryðjuverkasamtökum sem kunna að vera staddir í Noregi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert