Þyrftu að „kyssa byssurnar bless“

Stærstu hagsmunasamtök byssueigenda í Bandaríkjunum, NRA, hafa lýst yfir stuðningi við Donald Trump í forsetakosningunum í Bandaríkjunum seinna á árinu. Að mati þeirra þurfa byssueigendur í landinu að sameinast bakvið Trump eða „kyssa byssurnar bless“ verði Hillary Clinton kjörin.

„Við þurfum að sameinast og við þurfum að gera það strax,“ sagði Chris Cox einn leiðtogi NRA á ársfundi samtakanna í Louisville í Kentucky.

„Fyrir hönd þúsunda föðurlandsvina í þessum sal, fimm milljóna félagsmanna NRA um allt land og þeirra tugi milljóna sem styðja okkur, er ég formlega að tilkynna að NRA styður Donald Trump sem forseta.“

Stuðningur samtakanna við Trump kemur ekki á óvart en tímasetning er talin óeðlileg. Í síðustu tveimur kosningum hafa samtökin kynnt stuðning sinn við frambjóðendur miklu seinna og gefur þetta til kynna að NRA sé nú að reyna að sameina liðsmenn sína bakvið Trump frekar en Clinton.

Að mati framkvæmdastjóra samtakanna, Wayne LaPierre, er Clinton ógn við „byssufrelsi“ Bandaríkjamanna. „Þið getið kysst byssurnar ykkar bless,“ sagði LaPierre þegar hann lýsti afleiðingum þess að Clinton myndi vinna.

Trump var vel tekið á fundinum í dag þar sem hann sagðist ekki ætla að bregðast félagsmönnum. „Við ætlum að losa okkur við svæði sem banna byssur. OK? Ég er að segja ykkur það,“ sagði Trump við mikil fagnaðarlæti.

Hann gagnrýndi jafnframt Barack Obama forseta Bandaríkjanna en hann hefur kallað eftir viðbrögðum við byssuofbeldi í landinu.

Trump sagði jafnframt frá því að hann hafi lengi verið meðlimur NRA og einn af 13 milljónum Bandaríkjamanna með byssuleyfi.

Sagði hann að Clinton væri að reyna að verða „einræðisherra“ gegn byssum og að hún myndi taka í burtu réttindi Bandaríkjamanna til þess að verja sig.

Donald Trump á ársfundi NRA í dag.
Donald Trump á ársfundi NRA í dag. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert