Biðraðir við bensínstöðvar

Hundruðum bensínstöðva í Frakklandi hefur verið lokað eftir að mótmælendur hindruðu aðgengi að fimm olíuhreinsistöðvum í landinu. Mótmælendurnir berjast gegn umbótum frönsku ríkisstjórnarinnar á vinnumarkaðslöggjöfinni.

Biðraðir tóku að myndast við bensínstöðvar víða í Frakklandi, sérstaklega í norður- og vesturhluta landsins, einnig í París, höfuðborg landsins.

Samgöngumálaráðherra Frakklands sagði hins vegar rangt að tala um bensínskort.

Mikið hefur verið um mótmæli víða um landið á undanförnum dögum eftir að breytingum á vinnumarkaðslöggjöfinni var þvingað í gegn. Manuel Valls, franski forsætisráðherrann, beitti fyrr í mánuðinum sérstöku neyðarákvæði sem finna má í stjórnarskránni til þess að koma í veg fyrir uppreisn þingmanna Sósíalistaflokksins.

Ákvörðun forsætisráðherrans vakti hins vegar mikla reiði andstæðinga breytinganna. Tveir lögregluþjónar sluppu til að mynda naumlega þegar kveikt var í bíl þeirra í miðborg Parísar í seinustu viku.

Verkalýðssamtökin CGT sögðu í morgun að fimm af sjö olíuhreinsistöðvum landsins hefði verið lokað. Talsmaður samtakanna sagði að markmiðið væri ekki að búa til skort, heldur að tryggja það að lögin verði dregin til baka.

Valls sagði það ljóst að ríkisstjórnin myndi gera allt sem í hennar valdi stæði til að koma í veg fyrir skort á bensíni, 1.600 af 12.000 bensínstöðvum landsins voru annaðhvort orðnar tómar eða nálægt því í morgun. Olíusamtökin UFIP sögðu aftur á móti að olíubirgðir væru nægar, en ekki væri hægt að dreifa þeim með eðlilegum hætti. 

Biðraðir mynduðust við bensínstöðvar víða í Frakklandi í dag.
Biðraðir mynduðust við bensínstöðvar víða í Frakklandi í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert