Hawking getur ekki útskýrt Trump

Stephen Hawking.
Stephen Hawking. AFP

Leyndardómar alheimsins eru daglegt viðfangsefni breska stjarneðlisfræðingsins Stephens Hawking en jafnvel hann segist ekki geta útskýrt uppgang Donalds Trump í Bandaríkjunum. Hawking kallar forsetaframbjóðandann „lýðskrumara“ sem laðar að „lægsta mögulega samnefnara“.

Þegar stjórnendur þáttarins „Good Morning Britain“ á ITV-sjónvarpsstöðinni spurðu Hawking hvort þekking Hawking á alheiminum þýddi að hann gæti útskýrt vinsældir auðkýfingsins umdeilda komu þeir aldrei þessu vant að tómum kofunum hjá honum.

„Ég get það ekki,“ var hreinskilið svar Hawking.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort Bretar eigi að segja skilið við Evrópusambandið barst einnig í tal en Hawking er fylgjandi áframhaldandi veru innan þess. Ástæðan sé efnahagsmál, öryggi en einnig vísindi.

„Þeir dagar þegar við gátum staðið ein gegn heiminum eru taldir. Við þurfum að vera hluti af stærra bandalagi ríkja, bæði fyrir öryggi okkar og viðskipti. Möguleikinn á því að yfirgefa Evrópusambandið hefur þegar leitt til mikils falls pundsins vegna þess að markaðirnir telja að að það muni skaða efnahag okkar,“ sagði Hawking.

Veran í ESB hefði þýðingu fyrir vísindi. Með frjálsri för innan ríkja sambandsins geti námsmenn komið og farið frá Bretlandi og hægt sé að flytja inn fólk með sérfræðiþekkingu. Evrópska rannsóknaráðið hafi einnig styrkt breskar stofnanir verulega í gegnum tíðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert