Matteo Renzi leggur allt undir

Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu.
Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu. AFP

Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, segir að verði stjórnarskrárfumvarp hans ekki samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu í haust, muni hann segja af sér sem forsætisráðherra.

Meirihluti hans samþykkti á ítalska þinginu á dögunum frumvarp til breytinga á stjórnarskrá landsins. Er þar vald öldungadeildarinnar takmarkað við lagasetningu og dregið úr valdi svæðisbundinna stjórna í landinu. 

Stjórnarskrá landsins hefur lengi verið gagnrýnd fyrir að vera þannig gerð að erfitt er að mynda starfhæfa meirihluta og stöðugar ríkisstjórnir. Núverandi kerfi þar sem neðri deild þingsins og öldungadeildin hafa báðar mikið vald var komið á í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar til að sporna gegn því að öflugur leiðtogi á borð við Benito Mussolini gæti náð öllum völdum. Kerfið er hins vegar af mörgum talið úr sér gengið og skapi óstöðugleika og komi í veg fyrir mikilvægar breytingar á lögum landsins. Sem dæmi má nefna að engin ríkisstjórn sem mynduð hefur verið frá síðari heimsstyrjöld hefur setið heilt kjörtímabil, eða fimm ár.

CGIL, stærsta verkalýðshreyfing landsins, hefur þó lýst yfir óánægju sinni með að Renzi leggi pólitískt líf sitt að veði í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Telur hreyfingin að hann sé að reyna að láta atkvæðagreiðsluna snúast um framtíð ríkisstjórnarinnar, í stað þess að snúast um framtíð landsins. 

Nýjustu skoðanakannanir sýna að Renzi nýtur æ minni stuðnings í landinu og að þeim fjölgi sem munu kjósa Nei í atkvæðagreiðslunni sem mun að öllum líkindum fara fram í október.

Til að bæta ofan á áhyggjur Renzis munu í júní fara fram sveitastjórnarkosningar í landinu. Ekki er útlit fyrir að flokkur hans muni ríða feitum hesti í þeim kosningum. Hætta er á að flokkurinn missi Mílanóborg í hendur hægrimanna. Þá er staðan í Róm einnig óvænleg fyrir flokkinn. 

Sjá frétt Reuters.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert