Clinton verður forsetaefni demókrata

Hillary Clinton er forsetaefni demókrata samkvæmt AP fréttastofunni.
Hillary Clinton er forsetaefni demókrata samkvæmt AP fréttastofunni. AFP

Hillary Clinton hefur tryggt sér útnefningu demókrata sem forsetaefni flokksins eftir að hún hlaut stuðning nógu margra kjörmanna. AP-fréttastofan heldur því nú fram að Clinton hafi náð þeim 2.383 kjörmönnum sem þarf til þess að hljóta útnefninguna.

Sé það rétt er Clinton fyrsta konan til þess að verða forsetaefni bandarísks stjórnmálaflokks.

Andstæðingur hennar, Bernie Sanders, benti þó á í dag að Clinton hefði ekki enn unnið þar sem hún sé háð stuðningi ofurkjörmanna sem kjósa ekki fyrr en á flokksþingi flokksins í næsta mánuði.

Að sögn AP var Clinton komin með 1815 kjörmenn í kosningum og 548 ofurkjörmenn eftir forkosningarnar í Puerto Ricto um helgina. Í gær hlaut hún stuðning 20 ofurkjörmanna samkvæmt heimildum AP og þá var björninn unninn að sögn fréttastofunnar.

Í dag fara fram forkosningar í sex ríkjum, þar af risunum New Jersey og Kaliforníu. Ef marka má skoðanakannanir hefur Clinton talsvert forskot í báðum ríkjum.

Bernie Sanders heldur áfram að berjast.
Bernie Sanders heldur áfram að berjast. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert