Var hliðhollur Ríki íslams

Larossi Abballa birti myndband af sér inni á heimili fólksins.
Larossi Abballa birti myndband af sér inni á heimili fólksins. AFP

Maður sem drap franskan lögreglumann og eiginkonu hans við heimili þeirra nálægt París í gærkvöldi var að fylgja fyrirskipunum frá hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams. Hafði manninum verið skipað að „drepa trúleysingja“ en franskir embættismenn greindu frá þessu í dag. Árársmaðurinn, Larossi Abballa, var drepinn í skotbardaga við lögreglu. Hann var hliðhollur leiðtoga Ríkis íslams, Abu Bakr al-Baghdadi. Abballa lýsti yfir hollustu við leiðtoga Ríkis íslams fyrir um þremur vikum.

Lögreglumaðurinn var stunginn til bana fyrir utan heimilið en konan inni á því. Þriggja ára sonur parsins lifði af. Ríki íslams hefur birt myndband þar sem Abballa játar á sig drápin. Er hann inni í íbúð hjónanna í myndbandinu, rétt áður en lögregla ræðst inn.

Í myndbandinu hvatti hinn 25 ára gamli Abballa múslima í Frakklandi til þess að ráðast á lögreglumenn, fangaverði, blaðamenn, stjórnmálamenn og borgarstjóra. Nefndi hann nokkra þekkta franska blaðamenn á nafn.

Francois Hollande, forseti Frakklands, sagði í dag að árásin hefði verið hryðjuverk og að Frakkar glímdu enn við „gríðarlega ógn“.

Árásin var gerð í Magnanville, í um 55 km fjarlægð frá París en hún hófst um klukkan 20:30 að staðartíma þegar Abballa sat fyrir lögreglumanninum og stakk hann níu sinnum. Þá fór hann inn á heimilið og tók konu mannsins, sem var einnig lögreglumaður, og ungan son þeirra í gíslingu. Klukkan 20:52 lýsir Abballa yfir ábyrgð á árásinni á Facebook og klukkan 21:30 mæta lögreglumenn á staðinn og umsátursástand hefst. Það var ekki fyrr en um miðnætti sem lögregla brýst inn í húsið eftir að Abballa hótaði að sprengja það upp.

Þegar að lögregla kom inn drápu þeir Abballa og fundu konuna látna, en hún hafði verið stungin. Drengurinn var ómeiddur en í áfalli.

Franskir miðlar hafa nefnt hjónin og segja þau hinn 42 ára gamla Jean-Baptiste Salvaing og Jessica Schneider, 36 ára.

Frétt BBC.

Lögregla að störfum við heimili fólksins.
Lögregla að störfum við heimili fólksins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert