Endurheimtu ráðhúsið í Falluja

AFP

Íraskar hersveitir segjast hafa náð aftur á sitt vald ráðhúsinu í borginni Falluja í Írak. Byggingin hefur verið á valdi vígamanna hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams um nokkurra ára skeið.

Í yfirlýsingu sagði að íraskir hermenn hefðu flaggað fána sínum á ráðhúsinu að atlögu lokinni. Her- og lögreglumenn réðust inn í bygginguna og mættu lítilli mótspyrnu vígamanna.

Talið er að þeir hafi náð fleiri svæðum í suður- og austurhluta borgarinnar á sitt vald. Falluja hefur verið eitt höfuðvíga Ríkis íslams í Írak.

Borgin er aðeins fimmtíu kílómetra vestur af Bagdad, höfuðborg Íraks. Hún var sú fyrsta sem hryðjuverkasamtökin náðu á sitt vald, í janúarmánuði 2014. Sex mánuðum síðar höfðu samtökin náð yfirráðum yfir stórum hluta landsins.

Íraskar hersveitir réðust fyrst inn í borgina fyrir um fjórum vikum.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert