Hætta að taka við styrkjum frá ESB

Flóttafólk við landamæri Grikklands og Makedóníu.
Flóttafólk við landamæri Grikklands og Makedóníu. AFP

Samtökin Læknar án landamæra tilkynntu í dag að þau væru hætt að þiggja fjárstyrki frá Evrópusambandinu vegna „hættulegrar“ stefnu þess í málefnum flóttamanna.

Þau gagnrýndu sérstaklega samkomulag Evrópusambandsins og tyrkneskra stjórnvalda frá því í mars. Samkvæmt samkomulagi verður öllu flóttafólki, sem kemur ólöglega til Grikklands frá Tyrklandi, snúið aftur til Tyrklands. Á móti skuldbindur Evrópusambandið sig til þess að taka við einum sýrlenskum flóttamanni, sem kominn er til Tyrklands, í staðinn fyrir hvern sýrlenskan flóttamenn sem Tyrkir taka við frá Grikklandi.

Samkomulagið átti að vera svar Evrópusambandsins við einum mesta flóttamannastraumi til álfunnar frá því í síðari heimsstyrjöld.

Samtökin fengu í fyrra 56 milljónir evra, sem jafngildir um 7,8 milljörðum króna, frá stofnunum og aðildarríkjum ESB.

Samtökin tóku fram í yfirlýsingu að þau myndu nota varasjóð sinn til þess að tryggja að ákvörðunin hefði ekki áhrif á sjúklinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert