Erdogan tapaði aftur á æðra dómstigi

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AFP

Áfrýjunardómstóll í þýsku borginni Köln vísaði í dag frá áfrýjun Recep Tayyip Erdogans Tyrklandsforseta í máli þar sem forsetinn krafðist þess að lögbann yrði sett á Alex Springer-fjölmiðlalsamsteypuna.

Vildi Erdogan stöðva Michael Döpfner, yfirmann fjölmiðlasamsteypunnar, í að endurtaka stuðning sinn við þýskan sjónvarpsmann sem móðgaði Erdogan með gamanljóði sínu. 

Í síðasta mánuði hafnaði lægri dómstóll kæru Erdogans. Gamanljóðið sem um ræðir var upphaflega samið og frumflutt af Jan Böhmermann. Fjallaði ljóðið um að Erdogan stundaði kynmök við dýr og horfði á barnaklám.

Sjá frétt mbl.is: Þýskur dómstóll hafnar beiðni Erdogan

Olli ljóðið milliríkjadeilum á mill Þýskalands og Tyrklands og miklum deilum um tjáningarfrelsi. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, fyrirskipaði lögreglurannsókn að beiðni Erdogans, á því hvort Böhmermann hefði gerst brotlegur við lög. Hlaut Merkel mikla gagnrýni fyrir þá ákvörðun.

Áfrýjunardómstóllinn segir stuðningsyfirlýsingu Alex Springer-fjölmiðlasamsteypunnar vera verndaða af 5. grein þýsku stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi.

Erdogan gæti enn farið með mál sitt á æðra dómstig, eða þýska stjórnarskrárdómstólinn.

Sjá frétt The Local.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert