Sjóðir Clinton digrari en Trump

Hillary Clinton virðist ganga betur að fá stuðningsmenn sína til …
Hillary Clinton virðist ganga betur að fá stuðningsmenn sína til að fjármagna framboð sitt en Donald Trump. AFP

Kosningasjóðir Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins, eru töluvert digrari en sjóðir andstæðings hennar Donald Trump, frambjóðanda Repúblikanaflokksins. Í byrjun þessa mánaðar voru 42 milljónir dollara í kosningarsjóðum Clinton – eða tæpar 52 milljarðar króna, en 1,3 milljón dollara í sjóðum Trump.

Trump hefur haldið því fram að hann hafi fjármagnað eigin kosningaherferð og hefur reynt að draga upp mynd af sér sem utangarðsmanni, sem tengist engum sérstökum hagsmunahópum. Aukinn áhersla hefur þó verið lögð á fjármögnun frá því að Trump tryggði sér útnefningu Repúblikanaflokksins og hafa starfsmenn herferðar hans reynt að kæfa áhyggjur af fjármögnun herferðarinnar með fullyrðingum um að peningar „streymi nú inn“.

Fréttavefur BBC bendir á að mikill munur sé á því fjármagni sem er í sjóðum landsnefndar Repúblikanaflokksins nú og fyrir fjórum árum, en nefndin mun greiða það sem upp á vantar við  fjármögnunar kosningaherferðarinnar. Nú eru um 20 milljón dollarar í sjóðum landsnefndar en þegar Mitt Romney var frambjóðandi flokksins voru 60 milljónir í sjóðunum.

Trump fékk rúmar þrjár milljónir dollara frá stuðningsmönnum sínum í síðasta mánuði og sjálfur lánaði hann kosningasjóði sínum 2,2 milljónir dollara og er þá búinn að lána sjóðnum 46 milljónir dollara – rúma 56 milljarða króna – á síðasta ári.

Þessar upplýsingar koma fram á sama tíma og skoðanakannanir sýna Trump njóta minna fylgis en Clinton, auk þess sem hann hefur sætti gagnrýni frá æðstu mönnum í Repúblikanaflokknum sem eru ósáttir við árásir hans á spænskættaðan dómara sem úrskurðar í málaferlum sem rekin hafa verið á hendur honum.

Kosningastjóri Trump, Corey Lewandowski, var rekinn á mánudag. Hann sér þó ekki eftir neinu að sögn CNN, sem hafði eftir Lewandowski að „það hefði verið heiður og forréttindi að taka þátt í þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert