Sóru Ríki íslams tryggð sína

Fáni samtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki.
Fáni samtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki. Af vef Wikipedia

Tveir menn frá Kaliforníu hafa verið fundnir sekir um að leggja á ráðin um að liðsinna samtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki. Frá þessu greinir BBC.

Nader Elhuzayel og Muhanad Badawi, sem báðir eru 25 ára, voru fundnir sekir eftir tveggja vikna réttarhöld. Mennirnir voru handteknir eftir að Elhuzayel reyndi að fara um borð í flugvél frá Los Angeles til Tyrklands, með það fyrir augum að ganga til liðs við samtökin.

Badawi hafði keypt miða fyrir Elhuzayel, aðra leið til Ísrael en með millilendingu í Istanbúl. Saksóknarar sögðu mennina tvo hafa tjáð löngun til að deyja píslarvættisdauða, á samfélagsmiðlum. Sögðu þeir einnig að Facebook-reikningur sem virtist tilheyra Badawi hafa innihaldið færslur sem sýndu að hann hygðist einnig ganga til liðs við samtökin. Elhuzayel hafi síðan átt Facebook-reikning þar sem fáni samtakanna var notaður sem prófílmynd.

Mennirnir tveir bjuggu einnig til myndband sem sýnir Elhuzayel sverja Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtoga samtakanna, hollustu sína og sverja að hann myndi ferðast til Sýrlands til að ganga til liðs við þau.

Hann var einnig dæmdur fyrir 26 bankalagabrot þar sem hann hafði framvísað stolnum ávísunum, lagt peninginn inn á eigin reikning og svo tekið út reiðufé í nokkrum ólíkum útibúum í Orange-sýslu í Kaliforníu.

Saksóknarar sögðu féð ætlað til að fjármagna ferð hans til Sýrlands.

Báðir gætu mennirnir fengið allt upp í 15 ára fangelsisdóma fyrir að hafa ætlað að leggja samtökunum lið. Elhuzayel gæti svo fengið 30 ára dóm fyrir hvert og eitt bankalagabrotið en Badawi gæti fengið fimm ára dóm til viðbótar fyrir að borga fyrir hann flugið út.

Gert er ráð fyrir að dómur um refsingu mannanna verði kveðinn upp í september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert