Tveir enn í dái eftir óeirðirnar í Marseille

Þrjátíu og fimm manns slösuðust í óeirðunum eftir leik Rússlands …
Þrjátíu og fimm manns slösuðust í óeirðunum eftir leik Rússlands og Englands. AFP

Tveir stuðningsmenn enska landsliðsins eru enn í dái eftir óeirðirnar sem til kom eftir leik Englands og Rússlands í Marseille fyrir rúmri viku. Ástand þeirra Andrew Bache og Stewart Gray er stöðugt, að sögn franskra yfirvalda, en þeir eru þó ekki úr lífshættu.

Þrjátíu og fimm manns slösuðust í óeirðunum sem stuðningsmenn rússneska liðsins eru sagðir hafa verið kveikjan að. Að sögn Brice Robin, saksóknara í Marseille, stendur enn yfir leit að þeim sem réðust á þá Bache og Gray en Robin segir franska lögreglu líta á bæði málin sem morðtilraun.

Þrír stuðningsmenn rússneska liðsins voru dæmdir í tveggja ára fangelsi vegna þátttöku sinnar í óeirðunum og 20 til viðbótar var vísað úr landi, m.a. leiðtoga stuðningsmannahópsins,  Alexander Shprygin, sem laumaðist aftur til Frakklands til að fylgjast með leik Rússlands og Wales í gærkvöldi.

Að sögn franskra yfirvalda hefur Shprygin verið handsamaður á ný og verður honum vísað úr landi í annað skipti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert