Vildi „leyfa Trump að vera Trump“

Corey Lewandowski hér við hægri hönd Trumps.
Corey Lewandowski hér við hægri hönd Trumps. AFP

Það vakti mikla athygli í gær þegar fréttir bárust af því að Corey Lewandowski, kosningastjóri Donalds Trumps, hafi látið af störfum. Fjölmiðlar hafa leitast við að svara því hvers vegna hann hafi gert það og eru ástæðurnar sagðar vera ósætti á milli hans og annarra hátt settra manna í kosningastjórn Trumps.

Sjá frétt mbl.is: Kosningastjóri Trumps hættir

Lewandowski er sagður hafa verið einn af hugmyndasmiðunum á bakvið strategíuna „látum Trump vera Trump“ sem gekk út á að ritstýra ekki ummælum Trumps, heldur láta hann tala frjálslega. Þá er Lewandowski sagður hafa sett sig upp á móti því að ráða inn í kosningastjórnina reyndara fólk sem hefur tekið þátt í forsetakosningabaráttum áður. 

Undanfarna mánuði hefur hins vegar myndast mikill núningur innan kosningastjórnarinnar, að sögn The Guardian. Sérstaklega hafi myndast mikill rígur á milli Lewandowskis og Pauls Manaforts, sem er einn aðalskipuleggjandi baráttunnar. Þegar Lewandowski tilkynnti um afsögn sína í gær sagði hann meðal annars: „Paul Manafort hefur stjórnað kosningabaráttunni frá 7. apríl síðastliðnum. Það er staðreynd.“ Eru þessi ummæli hans sögð benda til þess að ósætti hafi ríkt þeirra á milli.

Þá heldur heimildarmaður New York Times því fram að Lewandowski hafi verið ósáttur með fjölmiðlafulltrúa Trumps, Hope Hicks. Eiga þau tvö að hafa rifist úti á götu á Manhattan, fyrir allra augum. 

Ivanka Trump, dóttir Donalds, á sérstaklega að hafa verið ósátt með þá uppákomu. Síðar er Lewandowski sagður hafa rifist við Ivönku Trump og eiginmann hennar og stjúpson Donalds, Jared Kushner.

Lewandowski er sagður hafa lent upp á kant við fjölda …
Lewandowski er sagður hafa lent upp á kant við fjölda starfsmanna kosningastjórnar Trumps. AFP

Samkvæmt New York Times ætlar Trump nú að breyta um stefnu í kosningabaráttunni og ætlar að ráða til sín reynslumeira fólk. Bendir það til þess að sjónarmið Lewandowskis um að „láta Trump vera Trump“ hafi orðið undir í herbúðum Trumps.

Þá hefur Trump einnig hafið fjáraflanir á netinu, og bar Lewandowski ábyrgð á þeim. En þær gengu mun hægar en búist var við og var það ekki til þess að auka vinsældir hans innan kosningastjórnarinnar.

Að lokum er það einnig nefnt í frétt New York Times að Lewandowski hafi átt erfitt með samskipti við hátt setta aðila innan Repúblikanaflokksins og við stóran hóp fjölmiðlamanna sem fjölluðu um kosningabaráttu Trumps.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert