Hjúkrunarfræðingur grunaður um fjöldamorð

Niels H. huldi andlit sitt þegar dómur var kveðinn upp …
Niels H. huldi andlit sitt þegar dómur var kveðinn upp yfir honum í febrúar í fyrra. AFP

Þýska lögreglan telur að fyrrverandi hjúkrunarfræðingur, sem var dæmdur í lífstíðarfangelsi í febrúar í fyrra hafi orðið mun fleiri að bana, líkalega mörgum tugum. Hann er grunaður um að hafa sprautað hjartalyfi í fólkið sem lést. Hann var hins vegar aðeins dæmdur fyrir að hafa orðið tveimur að bana.

Samkvæmt dómsúrskurði voru lík 99 einstaklinga sem hjúkrunarfræðingurinn sinnti grafin upp og þau rannsökuð. Í 27 þeirra fundust leifar af hjartalyfi. Fjallað er um málið á vef breska ríkisútvarpsins.

Hjúkrunarfræðingurinn, Niels H., er 39 ára gamall. Hann var sakfelldur í febrúar í fyrra og dæmdur fyrir tvö morð. Hann viðurkenndi hins vegar fyrir dómi að hafa orðið allt að 30 manns að bana með því að gefa þeim lyfið. 

Dómarar í málinu, sem fór fram í Oldenburg í Vesturhluta Þýskalands, sögðu að Niels þráði viðurkenningu. Hann sóttist eftir henni með því að reyna að endurlífga sjúklinga sem hann hafði gefið of stóran skammt af hjartalyfi, en gjöfin leiddi til þess að hjarta og æðakerfi sjúklinganna gaf sig.

Fólkið lést á milli áránna 2003 og 2005. Í apríl sl. sagði lögreglan að hún væri að rannsaka að minnsta kosti 200 dauðsföll, m.a. á öðrum heilbrigðisstofnunum þar sem maðurinn starfaði, en þetta átti sér stað í Oldenburg og í Wilhelmshaven.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert