Rubio hættir ekki í stjórnmálum

Marco Rubio öldungadeildarþingmaður.
Marco Rubio öldungadeildarþingmaður. AFP

Marco Rubio tilkynnti í dag að hann ætlaði að sækjast eftir endurkjöri sem öldungadeildarþingmaður fyrir Flórída en hann var í framboði í forvali Repúblikanaflokksins vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum í haust.

Rubio dró að lokum framboð sitt til baka en búist er við að Donald Trump verði útnefndur forsetaframbjóðandi repúblikana. Rubio hafði í kosningabaráttunni lýst því yfir að ef hann næði ekki kjöri sem frambjóðandi Repúblikanaflokksins ætlaði hann að segja skilið við stjórnmálin.

Haft er eftir Rubio að mikilvægt væri fyrir repúblikana að halda sætinu í öldungadeildinni en fram kemur í fréttinni að ákvörðun hans sé talin auka líkurnar á að sú verði raunin. Enn fremur er haft eftir honum að hann ætli að veita næsta forseta nauðsynlegt aðhald. Hvort sem það verði Trump eða Hillary Clinton sem verður að öllum líkindum frambjóðandi demókrata.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert