Refsivert að birta fréttir um Brexit

Breskir fjölmiðlar mega ekki fjalla efnislega um þjóðaratkvæðagreiðsluna í dag …
Breskir fjölmiðlar mega ekki fjalla efnislega um þjóðaratkvæðagreiðsluna í dag þar til kjörstaðir loka klukkan 22 í kvöld. AFP

Bretar ganga í dag til kjörklefanna til að greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðild að Evrópusambandinu. Fjölmiðlaumfjöllunin hefur verið mikil undanfarnar vikur og hart hefur verið tekist á. Í dag hins vegar birtast engar efnislegar fréttir á breskum miðlum um atkvæðagreiðsluna. Hvers vegna skyldi það vera?

Ástæðan er sú að í Bretlandi er fjölmiðlum bannað að fjalla efnislega um kosningar á sjálfan kjördag. Það þýðir að frá klukkan 00:30 í nótt og þar til kjörstaðir loka klukkan 22:00 á breskum tíma í kvöld verða engar efnislegar fréttir birtar um kosningarnar. Þá mega fjölmiðlar heldur ekki birta fréttir af skoðanakönnunum eða útgönguspám fyrr en kjörstöðum hefur verið lokað.

Breska fjölmiðlanefndin Ofcom setur þessar reglur og er tilgangur reglnanna sá að gæta hlutleysis á sjálfan kjördaginn. Fjölmiðlar mega birta myndir og fréttir af stjórnmálamönnum að greiða atkvæði í eigin heimabæ en þeir mega ekki taka viðtöl við þá. Ekki má heldur taka viðtöl við handahófskennda kjósendur og spyrja þá hvað þeir kusu. Gildir þetta í sveitarstjórnarkosningum, þingkosningum og í þjóðaratkvæðagreiðslum. Ströng viðurlög eru við brotum á þessum reglum, fangelsi eða fésektir.

Dagblöð mega innihalda fréttir um Brexit

Netmiðlar þurfa þó ekki að taka úr birtingu gamlar fréttir um kosningarnar, en þeir verða að forðast að birta þessar fréttir aftur, eða nýjar fréttir sem fjalla efnislega um kosningarnar.

Nokkrar undantekningar eru þó frá þessu fjölmiðlabanni. Dreifa má dagblöðum í dag sem prentuð voru í gær. Þessi dagblöð má nálgast inni á vefsíðum fjölmiðlanna og er því hægt að fá nýlegar fréttir af kosningunum með nokkrum músasmellum. Sum bresk dagblöð hafa tekið afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslunni og fengu því margir Bretar dagblöð heim til sín í morgun með forsíðum þar sem skýr afstaða er tekin. 

Umfjöllunarbann fjölmiðla gildir ekki beinlínis um samfélagsmiðla. Fjölmiðlar mega ekki birta fréttir af atkvæðagreiðslunni á samfélagsmiðlum í dag en almenningur má að sjálfsögðu tjá sig. Þá mega fjölmiðlar ekki birta til dæmis tíst af Twitter í fréttum sínum í dag, ef þessi tíst innihalda efnislega umfjöllun um kosningarnar eða lýsa tiltekinni skoðun.

Frá kjörstað í Chelsea-hverfinu í Lundúnum í dag. Bretar ganga …
Frá kjörstað í Chelsea-hverfinu í Lundúnum í dag. Bretar ganga til kjörklefanna í dag og kjósa um áframhaldandi aðild að Evrópusambandinu. AFP

Gott dæmi um þetta mátti finna í síðustu kosningum. Þá skapaðist mikil umræða um það á samfélagsmiðlum hvort kjósendur mættu hafa með sér hundana sína á kjörstað og inn í kjörklefann. Fjölmiðlar birtu fréttir af þessu og myndskreyttu með myndum af hundum á kjörstað. En sumir þessara hunda báru nælur eða aðrar merkingar frá stjórnmálaflokknum sem eigandinn studdi. Fjölmiðlar tóku þá upp á því að blörra pólitísku merkingarnar.

Erlendir fjölmiðlar mega þó birta fréttir af þjóðaratkvæðagreiðslunni og er því ekkert sem hindrar mbl.is frá því að fjalla um Brexit í dag. Erlendu fréttirnar af kosningunum mega þó ekki vera settar þannig fram að þeim sé beint að breskum kjósendum, eftir því sem kemur fram í reglum Ofcom.

Sjá skýringu BBC á umfjöllunarbanninu.

Sjá frétt CNN um umfjöllunarbannið fyrir þingkosningarnar 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert