Allir Evrópumenn velkomnir í London

Sadiq Khan var ötull stuðningsmaður þess að Bretar héldu sig …
Sadiq Khan var ötull stuðningsmaður þess að Bretar héldu sig í Evrópusambandinu. AFP

Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna, segir alla Evrópumenn sem búi í Lundúnum „mjög velkomna“ í borginni.

„Sem borg erum við þakklát fyrir ykkar gríðarlega framlag og það mun ekki breytast í ljósi þessarar atkvæðagreiðslu,“ skrifaði Khan á Facebook-síðu sína í dag og vísaði í niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu Breta þar sem ákveðið var að ganga úr sambandinu.

„Það er tæplega ein milljón evrópskra ríkisborgara sem búa í Lundúnum í dag og þeir auðga borgina okkar gríðarlega, vinna, borga skatta, vinna í almannaþjónustu og leggja sitt af mörkum til menningar- og borgarlífsins,“ skrifaði Khan.

Þá bætti hann við að nú væri það ábyrgð allra að bæta upp þá skiptingu sem var í aðdraganda kosninganna og „einbeita okkur að því sem sameinar okkur í stað þess sem sundrar okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert