Merkel: Fólk haldi ró sinni

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hvatti í morgun Evrópubúa til þess að halda ró sinni í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi í gær.

Á blaðamannafundi í Berlín, höfuðborg Þýskalands, sagði hún að íbúar álfunnar væru mismunandi og væntingar þeirra margvíslegar. Evrópusambandið þyrfti að sjá til þess og tryggja það að Evrópubúum liði eins og sambandið gagnaðist þeim dagsdaglega.

Áskoranirnar fram undan, á svo mörgum sviðum, væru of krefjandi til þess að einstök ríki gætu glímt við þær ein síns liðs. Evrópusambandið væri „einstakt samfélag“ og tryggði stöðugleika og samfélags- og efnahagslega hagsmuni.

Hún bað fólk um að líta til sögunnar og aldrei gleyma Evrópuhugsjóninni um einingu og frið. Ekki væri hægt að taka henni sem gefnu.

Merkel sagði að Þjóðverjar bæru sérstaka ábyrgð á því að Evrópusambandið næði árangri. Hún hefur boðað aðra Evrópuleiðtoga á fund í næstu viku til þess að ræða um áhrif útgöngu Breta á sambandið.

Michael Fuchs, einn helsti bandamaður Merkel og varaformaður Kristilega demókrataflokksins í Þýskalandi, sagði í morgun að Bretar ættu eftir að þjást vegna ákvörðunar sinnar. „Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis,“ sagði hann og vísaði sérstaklega til innri markaðar Evrópusambandsins, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert