Skógareldar eyðileggja hundruð heimila í Kaliforníu

Þúsundir slökkviliðsmanna berjast við að ná stjórn á skógareldum víða …
Þúsundir slökkviliðsmanna berjast við að ná stjórn á skógareldum víða í Kaliforníu, en þurrkar hafa verið í ríkinu sl. fimm ár. AFP

Skógareldar ógna nú um 1.500 byggingum í miðhluta Kaliforníu og hundruð manna hafa þurft að yfirgefa heimili sín.

Um 80 byggingar í fjallabænum Lake Isabella hafa þegar orðið eldunum að bráð. Eldarnir ógna nú um 1.500 byggingum til viðbótar, en að sögn fréttavefjar BBC telja yfirvöld í Kaliforníu þó að þeim 350 slökkviliðsmönnum sem berjast við að ná tökum á eldinum miði áleiðis.

Skógareldar hafa kviknað víða í hitunum sem nú eru í vesturhluta Bandaríkjanna og berjast þúsundir slökkviliðsmanna við að ná stjórn á skógareldum víða í Kaliforníu, en þurrkar hafa verið í ríkinu sl. fimm ár.

Skógareldarnir í Lake Isabella kviknuðu í um 65 km fjarlægð frá Bakersfield á fimmtudag og hafa nú um 2.000 hektarar orðið eldunum að bráð.

Vegum hefur verið lokað, rafmagn hefur verið tekið af svæðum í byggð og búið er að fyrirskipa brottflutning íbúa í níu byggðum á svæðinu, en samkvæmt vefsíðunni InciWeb sem veitir upplýsingar um eldana, þá hefur verið búið um hina brottfluttu í skólum í nágrenninu.

Engar fréttir hafa enn borist af meiðslum á fólki, en að sögn slökkviliðsmanna hafa ekki allir íbúar fylgt fyrirmælum um að yfirgefa svæðið.

Stærstu skógareldar í Kaliforníu á síðari árum loguðu í San Diego-sýslu, en þeir eldar kostuðu 15 manns lífið og eyddu 2.820 byggingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka