Leiðtogarnir segja Breta eiga leik

Francois Hollande, Angela Merkel og Matteo Renzi á blaðamannafundinum í …
Francois Hollande, Angela Merkel og Matteo Renzi á blaðamannafundinum í dag. AFP

Þjóðarleiðtogar Þýskalands, Frakklands og Ítalíu sögðu í dag að Evrópusambandið myndi ekki hefja óformlegar viðræður við bresk stjórnvöld fyrr en þau virkjuðu 50. gr. Lissabonsáttmálans og tilkynntu formlega um úrsögn sína úr sambandinu.

Bresk stjórnvöld ættu næsta leik.

„Við erum sammála um að 50. greinin sé mjög skýr. Aðildarríki sem vill yfirgefa Evrópusambandið verður að gera leiðtogaráði sambandsins viðvart,“ sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, við blaðamenn eftir fund leiðtoganna þriggja í Brussel síðdegis í dag.

„Það geta ekki verið nein frekari skref fyrr en það hefur gerst,“ bætti hún við. Aðeins þá myndi leiðtogaráðið gefa út leiðbeiningar til viðmiðunar sem eiga að liggja viðræðunum til grund­vall­ar.

„Það þýðir það. Og við erum sammála að þessu leyti um að það verði hvorki óformlegar né formlegar viðræður um útgöngu Breta fyrr en leiðtogaráðinu hefur borist tilkynning frá Bretlandi.“

Francois Hollande, forseti Frakklands, og Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, lögðu áherslu á að Bretar þyrftu að hefja úrsagnarferlið eins fljótt og mögulegt væri.

„Það er ekkert verra en óvissa,“ sagði Hollande.

Renzi sagðist auðvitað vera leiður yfir útgöngu Breta, en benti þó á að nú væri rétti tíminn til þess að skrifa nýjan kafla í Evrópusögunni um það sem sameinaði álfuna.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert