Evrópuþingmenn gagnrýndu úrsögnina

AFP

Heitar umræður voru á Evrópuþinginu sem kom saman í dag til þess að ræða úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu. Margir lýstu yfir sorg sinni yfir því að Bretar væru á leið úr sambandinu á meðan aðrir gagnrýndu harðlega bresku úrsagnarfylkinguna.

Gengu nokkrir svo langt að saka Nigel Farage, formann Sjálfstæðisflokks Bretlands (UKIP), um nasistaáróður auk þess sem púað var á hann og hann kallaður lygari.

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, setti þingfund í morgun og sagði bresk stjórnvöld þurfa að skýra fyrir Evrópusambandinu hið snarasta hver staða landsins gagnvart Evrópusambandinu sé.

Bresk stjórnvöld þurfa að virkja 50. grein Lissabon-sáttmálans til þess að hefja úrsagnarferlið úr sambandinu. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur sagt að eftirmaður sinn eigi að leiða úrsögnina og því óljóst hvenær Bretar munu koma til með að virkja 50. greinina.

Nigel Farage.
Nigel Farage. AFP

Juncker sagði Evrópuþingið verða að virða vilja bresku þjóðarinnar. Nigel Farage hrópaði þá og klappaði. „Þú barðist fyrir úrsögn og breska þjóðin kaus með úrsögn. Hvað ert þú þá eiginlega að gera hérna?“ sagði Juncker þá við Farage við mikinn fögnuð Evrópuþingmanna.

Farage sagði Evrópusambandið vera pólitískt verkefni í afneitun. Hann sagði við Evrópuþingmennina að fæstir þeirra hefðu unnið alvöru verk eða skapað eitthvað á lífsleið sinni.

Verður að vera munur á því að vera innan eða utan sambandsins

Guy Verhofstadt, sem sat áður á belgíska þinginu og fer fyrir frjálslyndishópnum á Evrópuþinginu, sakaði Farage um að hafa beitt nasistaáróðri í aðdraganda kosninganna og vísaði þar til auglýsingar sem úrsagnarfylkingin birti af flóttamönnum. Verhofstadt gagnrýndi einnig Boris Johnson, fyrrverandi borgarstjóra Lundúna og líklegan eftirmann Camerons. Sagði hann Boris vera svo sjálfselskan að hann sé tilbúinn að gera hvað sem er til þess að verða forsætisráðherra Bretlands.

Evrópuþingið. Mynd úr safni.
Evrópuþingið. Mynd úr safni. AFP

Manfred Weber, formaður Europe­an Peop­le's Party (EPP), hvatti þingmenn Evrópuþingsins til þess að standa í lappirnar og vinna áfram að Evrópuverkefninu. Hann sagði Farage eiga að biðja bresku þjóðina afsökunar og skammast sín fyrir popúlískan áróður gegn Evrópusambandinu.

Þýska þingið kom einnig saman í morgun og var Angela Merkel Þýskalandskanslari þar í morgun. Hún sagðist virða niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar og sagði Evrópusambandið nægilega sterkt til þess að lifa af án Bretlands. Að sama skapi varaði hún við því að Evrópusambandið ætlaði í samningaviðræðurnar við Breta af fullum þunga.

„Það verður að vera, og það mun vera, gerður munur á því hvort ríki vilji vera innan Evrópusambandsins eða utan þess,“ sagði Merkel á þinginu í morgun.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert