Vill halda Skotlandi í Evrópusambandinu

Nicola Sturgeon, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar.
Nicola Sturgeon, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar. AFP

Nicola Sturgeon, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, mun funda með leiðtogum Evrópuþingsins í Brussel á morgun og ræða þá stöðu sem komin er upp eftir að Bretar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu í síðustu viku að segja skilið við Evrópusambandið.

Meirihluti Skota, um 62%, greiddi atkvæði með áframhaldandi aðild Breta að sambandinu. 52% Breta kusu hins vegar að segja skilið við sambandið.

Sturgeon sagðist í dag vera reiðubúin til þess að stíga „öll nauðsynleg skref“ til þess að tryggja að Skotar yrðu áfram hluti af Evrópusambandinu. Ein leið væri að boða til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Skotland ætti að lýsa yfir sjálfstæði frá Bretlandi.

Hún mun meðal annars funda með Martin Schulz, forseta Evrópuþingsins, sem og leiðtogum stærstu stjórnmálahreyfinganna á þinginu.

Jafnframt hyggst hún ræða stöðu Skotlands við Jean Claude-Juncker, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, að því er segir í frétt Reuters.

Hún sagði það vera forgangsmál Skota þessa dagana að láta afstöðu sína gagnvart Evrópusambandinu skýrlega í ljós sem víðast um álfuna. Skotar vildu vera áfram í sambandinu. Það væri alveg skýrt.

„Það er á minni ábyrgð að tryggja að rödd Skotlands heyrist í Evrópu og ég ætla að sjá til þess að svo verði,“ sagði hún.

Hún sagðist þegar hafa rætt við forseta og forsætisráðherra Írlands um áhrif þjóðaratkvæðagreiðslunnar og þá væri skoska heimastjórnin einnig í sambandi við ríkisstjórnir annarra Evrópuríkja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert